146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

432. mál
[20:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið og skal reyna að svara eftir bestu getu. Það er tekið skýrt fram í greinargerðinni að ekki sé ætlunin að frumvarpið, þetta bann og þessi refsing, eigi við um notendur. Ég get ekki fullyrt, því ég hef hreinlega ekki fyrir framan mig þessa kafla í almennum hegningarlögum og er heldur ekki lögfræðingur frekar en hv. þingmaður, að það sé ekki möguleiki við þær aðstæður að notandi sem er gripinn með efnin undir höndum eða í vörslu, við kaup á efnum eða hvað, geti ekki sætt sektum. En það er ekki tilgangur laganna sérstaklega. Þess vegna er það tiltekið í greinargerðinni sem er, þótt hún sé ekki hluti af frumvarpinu sjálfu, fylgigagn, lögskýringargagn, með frumvarpinu og skýrir anda laganna. Sú er hugsunin.

Hins vegar hvet ég hæstv. velferðarnefnd sem ég mæli með að taki við frumvarpinu til að kynna sér þetta til hlítar.