sjúklingatrygging.
Frú forseti. Ég þakka ráðherranum ræðuna. Mig langar aðeins að spyrja út í það sem kemur hér fram sem meginefni frumvarpsins, það sem helst hefur valdið töfum við afgreiðslu mála hjá Sjúkratryggingum Íslands, þ.e. að það sé fyrst og fremst tíminn sem tekið hefur að fá öll gögn sem leiða til þess að hægt sé að taka afstöðu til málsins. Nú er tímarammi settur upp á átta vikur. Ég spyr hvað hafi valdið því að illa hefur gengið að fá gögn til að taka ákvarðanir og hvort eitthvað muni breytast þó að allir þeir aðilar sem um ræðir fái átta vikur til að bregðast við. Maður veltir því fyrir sér hvað hafi valdið því að fram til þessa hefur gengið svo illa að fá þessi gögn í hendur.
Lagt er til að heilbrigðisstarfsfólki sé skylt að tilkynna sjúklingum um hugsanlegan bótarétt samkvæmt lögunum. Ég velti því fyrir mér hvort fara eigi fram einhvers konar fræðsla eða hvort gert sé ráð fyrir því að um leið og þetta verði að lögum gerist það bara. Augljóslega er eitthvað sem hefur ekki alveg gengið eftir eins og þessi setning gefur til kynna. Ég spyr ráðherrann um þetta tvennt.