146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

stefna og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017--2021.

434. mál
[20:28]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021.

Tillagan byggir á vinnu starfshóps sem skipaður var árið 2015 og hafði það hlutverk að móta nýja stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Til grundvallar starfi hópsins var fyrirliggjandi stefna og framkvæmdaáætlun sem samþykkt var á Alþingi þann 11. júní 2012 og hafði verið framlengd þar til ný stefna og framkvæmdaáætlun tekur gildi. Unnið hefur verið stöðumat á grundvelli framkvæmdaáætlunarinnar 2012–2014 þar sem könnuð var staða verkefna hjá ábyrgðaraðilum verkefna hjá sveitarfélögum og stofnunum.

Sú stefna og framkvæmdaáætlun sem hér er kynnt byggir á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem var undirritaður hérlendis 2007 og samþykkt var að fullgilda á Alþingi í september 2016.

Í velferðarráðuneytinu hefur einnig verið unnið að mismunarlöggjöf með það að markmiði að uppfylla kröfur 5. gr. samningsins um jafnrétti og bann við mismunun og 27. gr. hans um aðgengi að vinnumarkaði.

Markmið mismunarlöggjafar eru þar að auki að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis og tilskipunar um jafna með ferð á vinnumarkaði. Frumvarp til laga hefur verið lagt fyrir Alþingi.

Einnig eru nú lögð fram á Alþingi frumvörp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og frumvarp til laga um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Við vinnu að nýrri stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks var leitast við að byggja vinnuna á gagnreyndri þekkingu og sett fram framtíðarsýn, markmið og skilgreindar aðgerðir með ábyrgðaraðila, samstarfsaðilum, tímaáætlun, kostnaði og mælanlegu markmiði. Við vinnuna var haft víðtækt samráð við samtök fatlaðs fólks, sveitarfélög, þjónustuaðila, stofnanir, sérfræðinga á málasviðinu og önnur ráðuneyti. Stefna í málefnum fatlaðs fólks tekur mið af tilteknum grunngildum svo sem einu samfélagi fyrir alla, jöfnun tækifærum og lífskjörum, algildri hönnun sem gagnast öllum og því að fatlað fólk skuli vera við stjórnvölinn í eigin lífi.

Stefna í málefnum fatlaðs fólks tekur einnig mið af því að fötlun er hugtak sem þróast og breytist og að fötlun verður til í samspili einstaklinga sem eru með skerðingar sem og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og virka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Því er áhersla lögð á að mikilvægt sé að fólk með fötlun geti lifað sjálfstæðu lífi með reisn, að mannréttindi séu virt og bann lagt við aðgreiningu og mismunum á grundvelli fötlunar.

Markmiðið er að íslenskt samfélag byggist á virðingu fyrir fjölbreytileika og viðurkenningu á því að fötlun sé hluti af mannlegum margbreytileika. Því þarf að bregðast við mismunun af fullri alvöru, m.a. með því að fara að alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland hefur undirritað og gildandi löggjöf í því skyni.

Þingsályktunartillögunni er skipt í sjö málasvið í stafrófsröð sem eru: aðgengi, atvinna, heilsa, ímynd og fræðsla, menntun, sjálfstætt líf og þróun þjónustu. Innan hvers málasviðs eru tilgreindar fjórar til sjö aðgerðir, alls 37 talsins.

Aðgengi nær yfir aðgerðir sem miða að því að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra sem skal m.a. gert með því að bæta aðgengi fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi og að fatlað fólk hafi aðgang að upplýsingum um réttindi og þjónustu á því formi að allir geti skilið og tileinkað sér þær.

Atvinna nær yfir aðgerðir sem hafa að aðalmarkmiði að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks, en atvinnuþátttaka fatlaðs fólks dregur úr samfélagslegri einangrun, stuðlar að virkni, eykur skilning á fötlun, minnkar fordóma, styður sjálfstæði og sjálfræði fatlaðs fólks og dregur úr fátækt.

Heilsa snýst um að efla almennt heilbrigði fatlaðs fólk, en mikilvægt er að fatlað fólk, börn og fullorðnir, hafi gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem er í stakk búin til að veita einstaklingum með sérhæfðar þarfir vegna fötlunarþjónustu óháð fötlun.

Ímynd og fræðsla lýtur að mikilvægi viðhorfa til fatlaðs fólks í samfélaginu, en auka þarf þekkingu og skilning almennings á málefnum tengdum fötlun og stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Mikilvægt er að fatlaðir og samtök þeirra taki þátt í áætlanagerð um breytta ímynd og fræðslu.

Menntun lýtur að því að fatlað fólk hafi sama rétt til menntunar og aðrir. Byggja þarf upp fjölbreyttara nám sem hentar fötluðu fólki svo ekki megi missa sjónar á mikilvægi þess að nám sem þegar er til staðar sé aðgengilegt fötluðu fólki með því að ryðja aðgengishindrunum úr vegi.

Sjálfstætt líf byggir á því að fatlað fólk njóti mannréttinda og lífskjara til jafns við aðra. Fatlað fólk skal eiga þess kost að nýta borgaralegan rétt sinn, geta valið hvernig lífi þess er háttað og hafa fullan aðgang að menningu, tómstundum og afþreyingu. Áhersla verður lögð á að eyða hindrunum sem mæta einstaklingum í daglegu lífi, en mikilvægt er að fatlað fólk komi að stefnumótun og ákvörðunum í eigin málum.

Þróun þjónustu lýtur að því að þjónusta og stuðningur við fatlað fólk stuðli að jafnræði, sjálfræði og stuðningi til jafns við aðra. Þjónustan skal miða að því að auka sjálfstæði og lífsgæði og veitt í samráði við hinn fatlaða og fjölskyldu hans eða aðstandendur eftir aðstæðum.

Hæstv. forseti. Ég hef hér gert grein fyrir meginatriðum stefnu og framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks 2017–2021. Mikilvægt er að slíkri áætlun sé vel fylgt eftir til að fylgjast með árangri. Lagt er til að heildarumsjón með eftirfylgni og framkvæmd verði í höndum ráðherraskipaðs starfshóps í málefnum fatlaðs fólks. Um stefnu þessa og framkvæmdaáætlun verði víðtækt samráð haft við fatlað fólk og samtök þess, sveitarfélög, atvinnulíf, stofnanir og ráðuneyti um framkvæmd stefnunnar til að ná góðum árangri og að þekking og reynsla nýtist sem best.

Ég leyfi mér að leggja til að áætlunin verði að lokinni umræðu hér vísað til velferðarnefndar og til síðari umr.