146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn meðferð á vinnumarkaði.

435. mál
[21:10]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Gert er ráð fyrir viðbótarfjármagni til Jafnréttisstofu til að sinna hlutverki sínu í tilefni af þessu frumvarpi. Þó er rétt að taka fram að þarna er verið að tryggja fólki á vinnumarkaði önnur úrræði, svo sem tilhlutan stéttarfélaga þegar talið er að brotið hafi verið á starfsmönnum á grundvelli laganna. Auðvitað geta stéttarfélög líka hlutast til fyrir hönd starfsmanna þegar að þessu kemur. Ég tel að í því lagaumhverfi sem við höfum á vinnumarkaði og því til viðbótar eftirlitshlutverki Jafnréttisstofu í þessu máli, séum við með nægjanleg úrræði svo fólk geti leitað réttar síns, eins og margreynt er á vinnumarkaði þegar upp koma álitaefni er snúa að réttindum starfsmanna, og að starfsemi Jafnréttisstofu sé nægilega fjármögnuð til að sinna hlutverki sínu í málinu.