146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

uppbygging löggæslu.

[13:50]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við höfum kannski mismunandi sýn á það að tala um að fjármálaáætlun sé eingöngu stefnumörkun. Það er svo sem ekkert nýtt, eins og fram kom í máli ráðherra, að það þurfi að forgangsraða. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að það þarf að bæta í til að gera betur ef ekki á að fara illa. Það er ljóst af svörum ráðherra og mætti jafnvel skilja sem svo að henni finnist nóg að gert. Ríkislögreglustjóri metur aftur á móti stöðuna svo að lögreglumenn séu of fáir til að lögreglan geti sinnt þjónustu- og öryggishlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Þegar við fjöllum um þessi mál erum við að ræða um öryggi borgaranna. Mig langar því til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi látið gera sérstaka úttekt á því hvað þurfi til svo lögreglan geti staðið undir lögbundnu þjónustu- og öryggishlutverki.