146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð umræða sem hv. þm. Smári McCarthy bryddar upp á. Upplýsingakerfi og gagnagrunnar, hugbúnaðarþróun og frjáls hugbúnaður; allt er það afar mikilvægt en vill oft falla í skugga vegna þess hve tæknilegt það er. En það er svo víðfeðmt að ég get ekki farið ýkja djúpt í málefnin í ræðu minni. Í dag verður því birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins mun ítarlegra svar. Fjölmargir þættir í rekstri upplýsingakerfa eru nokkuð almennir og sambærilegir þvert á stofnanir. Töluvert er hægt að vinna með samrekstri. Þar er sérstaklega horft til kerfa sem halda utan um tölvupóst, skjöl og vefi. Þá hafa skýjalausnir gert það auðveldara að útvista ýmsum þáttum tölvukerfa án þess að gefa afslátt af öryggi. Þó geta skýjalausnir verið á gráu lagalegu svæði þegar ekki er fastmótað í hvaða landi gögnin eru geymd. Fátt bendir til annars en að skýjalausnir ættu að vera hagkvæmar fyrir opinbera aðila. Nokkrar tegundir af gagnagrunnum eru í notkun. Mikil tækifæri eru til þess að gera notkun þeirra einsleitari, m.a. til að lækka kostnað og einfalda umsýslu. Það sama má segja um vefumsjónarkerfi sem notuð eru fyrir vefi opinberra stofnana. Mörg mismunandi kerfi eru í notkun og þau eru ýmist hýst utan stofnunar eða innan hennar. Nánar má lesa um þetta í greinargerð sem birt verður á vef ráðuneytisins.

Hv. þingmaður nefndi samþættingu kerfa með opnum forritunarviðmótum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur verið þátttakandi í verkefni á vegum Evrópusambandsins sem kallað hefur verið Landsumgjörð um samvirkni. Þær vefþjónustur sem þróaðar hafa verið tryggja aðgengi að eftirfarandi fjölmörgum kerfum ríkisins, m.a. þjóðskrá, fyrirtækjaskrá, ökutækjaskrá, póstnúmeraskrá, virðisaukaskattsskilum, tollskrá, námskrá og námsferlaskrá. Til viðbótar eru hjálparþjónustur sem tryggja auðkenningu, rafræna undirritun, sendingu tölvupósts o.fl. Unnið hefur verið að því að gera þessa þjónustuþætti aðgengilegri í gegnum sameiginlega vefgátt sem aðgengileg verði þeim sem þróa kerfi ríkisins.

Málshefjandi nefnir einnig aðferðafræði við hugbúnaðarþróun á vegum hins opinbera, einkum varðandi villuprófun og gæðastýringu. Hér hefur hið svokallaða Fossamódel verið aðgengilegt lengi þar sem allar kröfur til hugbúnaðar eru lagðar fram í upphafi, kerfi smíðað og prófað í heild sinni í lok tímabils. Samkvæmt svonefndri Agile-hugmyndafræði er verkefninu skipt niður í stutta spretti fremur en einn stóran áfanga. Fáir staðlar eru til um kröfur til hugbúnaðargerðar fyrir íslenska ríkið og brýnt er að gera úrbót í þeim málum. Þó er til staðallinn ÍST 32 frá 1995 um almenna skilmála um útboð og verksamninga vegna gagnavinnslukerfa. Í honum eru ákvæði um prófanir verktaka, skipulagningu og úrbætur. Um aðgengi að opnum gögnum get ég sagt að ríkið rekur nú þegar vefinn opingogn.is. Þar eru þó dapurlega fá gagnasett og lítil virkni. Vefurinn er rekinn af Þjóðskrá Íslands en þó er ekki við þá stofnun að sakast. Slíkar vefþjónustur eru aldrei betri en gögnin sem þær hafa aðgang að og þar stendur upp á stofnanir og ríkisaðila að standa sig betur.

Ég hef síðan ég kom í fjármála- og efnahagsráðuneytið klifað á þeim áhuga mínum að töluleg gögn verði sem mest birt frá undirstofnunum ráðuneytisins og ráðuneytinu sjálfu. Sem dæmi er birting reikninga ríkisins og ársreikninga fyrirtækja. Um mikilvægi slíkrar vinnslu erum við hv. málshefjandi sammála. Hér er mikið verk fram undan.

Frá árinu 2008 hefur sú stefna verið í gildi að nota frjálsan og opinn hugbúnað. Meginstef stefnu ríkisins um opinn og frjálsan hugbúnað er að gætt skuli að því að gefa frjálsum hugbúnaði sömu tækifæri og séreignarhugbúnaði þegar tekin er ákvörðun um kaup á nýjum búnaði. Í stefnunni er kveðið á um að leitast verði við að velja hugbúnað sem byggist á opnum stöðlum, að opinberir aðilar verði ekki of háðir einstökum hugbúnaðarframleiðendum og þjónustuaðilum. Mér vitanlega hefur þessi stefna ekki sætt endurskoðun eða mati á árangri, sem þó er tímabært.

Virðulegi forseti. Innan fjármálaráðuneytisins hefur þingsályktunartillaga Pírata um tæknistjóra ríkisins verið lesin vandlega. Unnið er að því að fara vandlega yfir tölvumál ríkisins og opinber innkaup á hugbúnaði og vélbúnaði o.fl. Markmiðið er bæði að lækka kostnað en ekki síður að auka ánægju íbúanna. Þrátt fyrir að standa framarlega í ýmsu tilliti hér á Íslandi eru mörg svið þar sem betur má gera.