146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

439. mál
[17:53]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa framsögu. Um er að ræða mál sem er kannski beint tengt því máli sem við ræddum hér áðan. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í breytingu á 26. gr., um skyldur sveitarfélaga, þar sem segir:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er sveitarfélagi ekki skylt að veita stuðningsþjónustu á stofnunum, svo sem sjúkrahúsi og öldrunarstofnun. Samvinna skal þó alltaf höfð við viðkomandi stofnun …“.

Nú er það svo að hjúkrunarheimili eru ekki eingöngu fyrir aldraða. Með breytingu á heilbrigðislögum á sínum tíma er opnað á það fyrirkomulag að inni á hjúkrunarheimilum er oft yngra fólk sem þarf aðstoð, hjúkrunarþjónustu. Ég velti fyrir mér hvort tekin hafi verið umræða um það út af því að það er sagt „svo sem sjúkrahúsi og öldrunarstofnun“ hvort þarna ætti að standa „hjúkrunarheimili“ í staðinn eða hvort sú skylda hvíli þá á sveitarfélögunum að veita þessa þjónustu þegar um yngri einstaklinga er að ræða sem eru á hjúkrunarheimili.