146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[20:09]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni kærlega fyrir þetta andsvar. Til að skýra mál mitt enn frekar þá var ég einfaldlega að vitna í landsskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í júní í fyrra þar sem fram koma áðurnefndar athugasemdir við það regluverk sem íslenskt fjármála- og bankakerfi býr við. Í þessari landsskýrslu, eins og áður, hefur verið bent á ákveðna hluti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á að Fjármálaeftirlitið hafi ófullnægjandi reglugerðarvald. Það eru fleiri atriði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á í ársskýrslu sinni, og hefur gert í gegnum tíðina, varðandi þá veikleika sem hægt er að finna í íslensku banka- og fjármálakerfi og umgjörð og regluverki þess.

Ég er ekki að fara fram hér í ræðustól Alþingis og boða byltingarkenndar hugmyndir. Ég er einfaldlega að benda á þessar athugasemdir. Þessar athugasemdir eru að mínu mati athugasemdir á borð við það að Fjármálaeftirlitið vanti hreinlega tennur og sjálfstæði til að gegna nauðsynlegu og lagabundnu hlutverki sínu, því sé ekki til að dreifa.

Hv. þingmaður veit ósköp vel að í aðdraganda efnahagshrunsins 2008 var eitt af stærstu gagnrýnisverðu atriðunum skortur á eftirliti með bankastarfsemi og fjármálastarfsemi. Það er því mín skoðun að til að fara í alvöruumræðu um styrkingu á regluverki á íslensku fjármálakerfi þurfum við að taka til umræðu öll þau atriði sem koma frá aðilum á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem hefur yfirburðaþekkingu á íslensku banka- og fjármálakerfi. Það er það sem ég átti við í ræðu minni, ef það hefur eitthvað misskilist.