146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[18:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Mig langar ekki svo mikið að spyrja ráðherra út í efni málsins — enda tel ég löngu tímabært að uppfæra ákvæði um landgræðslu sem hafa verið í lögum frá því elstu menn muna — heldur langar mig að spyrja út í formið, hvers vegna sú leið er farin að viðhalda þeim flókna strúktúr sem er á þessum málum með því að vera áfram með sérstök lög um landgræðslu og önnur lög um skógrækt.

Í greinargerð er vissulega vísað til nefndar sem var skipuð af þáverandi ráðherra árið 2011 en hún hafði það markmið að endurskoða þessi lög hvor í sínu lagi. Síðan eru liðin nokkur ár. Það má alveg vísa í fleiri skýrslur, eins og t.d. Hvítbók um endurskoðun náttúruverndarlaga, þar sem áhersla var lögð á að huga að því að fella lög um landgræðslu og lög um skógrækt inn í náttúruverndarlög. Á þeim fimm árum sem eru liðin frá því að nefnd um endurskoðun landgræðslulaga skilaði niðurstöðum til ráðuneytis hefði mér ekki þótt úr vegi að það væri tekið til skoðunar innan ráðuneytisins hvort ekki mætti nálgast þetta með heildstæðum hætti og fella saman lög um landgræðslu og skógrækt, eins og flestum úttektum virðist koma saman um að sé til hagsbóta fyrir báða málaflokka, enda er þetta í raun einn og sami málaflokkurinn, sá málaflokkur að viðhalda og bæta gróðurauðlind.