146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Forseti. Það er ósköp heilbrigt að við deilum ekki sýn á alla skapaða hluti. Þingið hugsar væntanlega til þess að við tökumst harkalega á og það eigum við að gera. En til þess þurfa mál að vera lögð hér fram þannig að við getum gert það. Versta niðurstaðan er þegar hlutirnir leka stjórnlaust í einhvern farveg sem við höfum ekki rætt og mörg okkar vilja ekki. Ég ber virðingu fyrir mörgum þingmönnum stjórnarliðsins, hv. þm. Brynjari Níelssyni, hæstv. ráðherra Sigríði Andersen, sem koma hreint fram og segja skoðun sína og standa fyrir máli sínu. Mér finnst verra þegar ráðherrar koma í óundirbúnum fyrirspurnum og eru alltaf sammála öllu. Og verstur er hæstv. menntamálaráðherra sem fer yfirleitt alltaf á djúpið og mælist ekki á radar rétt á meðan óvinsæl mál eru á dagskrá. Nú bið ég að hann komi upp á yfirborðið og segi einu sinni sína skoðun á málinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)