146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hægri flokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn, Björt framtíð og Viðreisn, hafa það vissulega á stefnuskrá sinni að einkavæða, en þeir tala ekki mikið fyrir því fyrir kosningar vegna þess að þeir vita að fylgið myndi hrynja af þeim ef þeir færu að tala um það þá að til stæði að einkavæða í heilbrigðiskerfinu, að einkavæða í menntakerfinu o.s.frv. Þess vegna þora þeir ekki fram með þessar skoðanir fyrr en þeir eru komnir að kjötkötlunum og geta ráðskast með þessi mál bak við tjöldin. Ég segi fyrir mína parta og eflaust margra annarra þingmanna hér inni að það er bara stórhættulegt að þingið fari í sumarfrí. Hvað gera menn fyrst þeir geta gert þetta meðan þingið er að störfum, að kynna þetta ekki fyrir þinginu? Hverju eigum við von á þegar þingið fer í sumarfrí? Er ekki betra bara að koma hérna með svefnpokana og vera á varðbergi? [Hlátur í þingsal.]