146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

fjárveitingar til sjúkrahúsþjónustu.

[11:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eru sett fram metnaðarfull markmið í texta um framúrskarandi sjúkrahúsþjónustu, sérhæfð sjúkrahús skuli standast samanburð við sambærileg sjúkrahús á Norðurlöndum, biðtími eftir aðgerðum og meðferð verði styttur og svo mætti lengi telja. Í umsögn Landspítala kemur hins vegar fram að miðað við hin metnaðarfullu markmið og tillögur sem birtast í áætluninni þurfi innlend sjúkrahús að skera niður kostnað um u.þ.b. 5 milljarða á tímabilinu ef halda eigi starfsemi óbreyttri að öðru leyti.

Í viðtali við Morgunblaðið í gær lætur hæstv. fjármálaráðherra hafa eftir sér að Landspítalinn taki aukningu hjá ríkisstjórninni og beri saman við ósk sína um fjármagn og telji aukninguna vera niðurskurð af því að ekki sé orðið við öllum hans óskum. Hæstv. ráðherra segir staðhæfingar spítalans rangar.

Eins dapurlegt og það er að staðan sé sú að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar munnhöggvist um mikilvægar stofnanir á borð við Landspítalann í fjölmiðlum er það ekki það sem ég ætla að ræða hér, heldur langar mig að spyrja hvað ráðherra eigi nákvæmlega við þegar hann segir að staðhæfingar spítalans séu rangar.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvað það kallist þegar þjóðin eldist, sjúklingum fjölgar, bæði vegna aldurs og aukins fjölda ferðamanna, kröfur eru gerðar og settar fram í texta um bætta þjónustu, dýrari lyf, styttri biðtíma en svo fylgir fjármagnið ekki þeim kröfum sem eru settar fram. Hvað kallast það, hæstv. ráðherra? Er ekki fullkomlega eðlilegt að tala þá um niðurskurð þó að krónum til spítalans fjölgi? Því að einhvers staðar þarf væntanlega að skera niður til að mæta þeim kröfum sem settar eru fram. Lítur hæstv. ráðherra bara á þessar kröfur sem við lesum um í fjármálaáætluninni sem óskalista spítalans? Eða hvernig á nákvæmlega að mæta þeim kröfum sem þar eru settar fram, mæta þeim yfirlýsingum um að heilbrigðismálin séu forgangsmál, mæta kröfum 86.000 Íslendinga sem skrifuðu undir áskorun þessa efnis til stjórnmálamanna eða stefnir hæstv. ráðherra kannski að heilbrigðri fækkun aldraðra og sjúkra eins og stefnt er að svokallaðri heilbrigðri fækkun (Forseti hringir.) stúdenta, heilbrigðri fækkun ferðamanna, með því að skera niður og tryggja að fjármagnið standi ekki undir raunverulegum þörfum?