146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

varaformennska utanríkisráðherra í samtökum hægri flokka.

[11:53]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Vaxandi uppgangur þjóðernishyggju og einangrunarhyggju er eitt helsta áhyggjuefni í alþjóðastjórnmálum um þessar mundir hvort sem litið er til Bandaríkjanna eða Evrópu. Málstaður þjóðernishyggju og andúðar á múslimum var afar áberandi í hollensku kosningunum og sömu áherslur eru því miður fyrirferðarmiklar í kosningabaráttunni fyrir frönsku kosningarnar núna á sunnudaginn.

Við höfum séð þessa þróun víðar í Evrópu, til að mynda í Póllandi þar sem hægri sinnaði þjóðernisflokkurinn Law and Justice er ráðandi. Sá flokkur neitaði að taka á móti 7 þúsund flóttamönnum sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði samþykkt að gera í Varsjársamkomulagi. Hann hefur bannað mannréttindabaráttu samkynhneigðra og lagði fram frumvarp síðastliðið vor til að þrengja rétt pólskra kvenna til fóstureyðinga, en pólska fóstureyðingarlöggjöfin var fyrir ein sú strangasta í Evrópu.

Við sjáum þessa þjóðernishyggju og hörðu stefnu gegn innflytjendum í Finnlandi þar sem finnski hægri þjóðernisflokkurinn Perussuomalaiset vill þrengja löggjöf gagnvart innflytjendum svo um munar. Við sjáum þessa þjóðernishyggju líka hjá nágrönnum Evrópu eins og hjá AK-flokknum tyrkneska, flokki Erdogans, forseta Tyrklands, sem lagði fram frumvarp síðasta haust í samvinnu við öfgahægriflokkinn MHP til að veikja vald tyrkneska þingsins og styrkja einráða stöðu forsetans. Likud-flokkurinn ísraelski er svo einn af þeim flokkum sem lengst vilja ganga í að takmarka baráttu Palestínufólks til að fá viðurkenningu á sínu eigin ríki. Í því hefur formaður Likud-flokksins, Benjamin Netanyahu, gengið fremst fram fyrir skjöldu.

Af hverju er ég að nefna þessa flokka hér? Jú, allir þessir stjórnmálaflokkar eiga það sameiginlegt að vera í samtökum hægri flokka í Evrópu sem heita ACRE. Í þeim samtökum er líka Sjálfstæðisflokkurinn. Í þeim samtökum gegnir hæstv. utanríkisráðherra trúnaðarstöðu sem varaformaður stjórnar ACRE.

Í ljósi þess að hæstv. utanríkisráðherra er ekki bara utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins heldur líka Íslands vil ég fá að spyrja ráðherrann hvort honum þyki þessi ábyrgðarstaða í samtökunum fara saman við ábyrgðarstöðuna sem hann gegnir sem utanríkisráðherra. Fer varaformennska hans saman við utanríkisstefnu Íslands sem viðurkennir Palestínu sem sjálfstætt ríki (Forseti hringir.) og hefur haft jafnréttissjónarmiðin í öndvegi? Stangast þetta ekkert á?