146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

varaformennska utanríkisráðherra í samtökum hægri flokka.

[11:57]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það eru vissulega tíðindi sem hér eru boðuð af hálfu hæstv. utanríkisráðherra, að hann ætli ekki að gegna þessari stöðu lengur, væntanlega vegna þess að honum finnst þetta stangast á við stöðu sína sem hæstv. utanríkisráðherra Íslands. Ég gef mér það.

Ef svo er velti ég líka fyrir mér og vil gjarnan fá að heyra það frá hæstv. utanríkisráðherra hvernig þetta fari saman við ásýnd Íslands á alþjóðavettvangi þegar utanríkisráðherra landsins er í félagsskap með mönnum eins og Erdogan, forseta Tyrklands, sem við þurfum ekkert að orðlengja um hvaða sýn hefur og hver staða hans er í alþjóðastjórnmálum nú um stundir. Hvernig fer þetta saman við ásýnd Íslands á alþjóðavettvangi?