146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Frú forseti. Í dag flyt ég í fyrsta sinn skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem að þessu sinni eru með öðru sniði en áður. Hún veitir yfirlit yfir stöðu utanríkismála Íslands og helstu atburði á þeim vettvangi síðustu 12 mánuði, en er fyrst og fremst miðuð við markmið í utanríkismálum og aðgerðir utanríkisþjónustunnar til að ná þeim. Í skýrslunni er gengið út frá fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og leitast við að sýna markmið, mælikvarða og aðgerðir á greinargóðan hátt.

Utanríkisþjónustan er öflugasta tæki sem við höfum til að gæta hagsmuna lands og þjóðar í æ breytilegri heimi. Við þurfum að skerpa og brýna þetta tæki reglulega til að það þjóni tilgangi sínum. Fjárframlög til utanríkisþjónustunnar 2017 nema 13,6 milljörðum kr., eða 1,8% af A-hluta fjárlaga. Þetta er ekki mikið fé í ljósi þess að því er varið til allra þátta utanríkismála, varnarmála, utanríkisviðskipta, alþjóðastofnana, starfsfólks og starfsstöðva, heima sem erlendis, og meira en þriðjungur fjárins fer til þróunarsamvinnu. Okkur ber því skylda til að verja þessu fé á skynsamlegan hátt, forgangsraða, setja okkur markmið og aðgerðaáætlanir. Við þurfum að horfa fram á veginn þegar ákvörðun er tekin um starfsstöðvar erlendis, viðhalda öflugri borgaraþjónustu, veita kjörræðismönnum Íslands góðan stuðning og vera sveigjanleg og vera framsýn.

Markmið og áherslur taka breytingum, eðli málsins samkvæmt, og að sama skapi skipulag starfsins. Í fámennri utanríkisþjónustu eins og okkar er mikilvægt að hafa markmið utanríkisstefnunnar skýr. Í þeim efnum þarf að nýta vel fjárhagslegt svigrúm og mannauð, heima sem erlendis.

Reglulega hefur farið fram endurskoðun á starfi, áherslum og markmiðum utanríkismála, síðast fyrir 17 árum, árið 1998. Þar sem nokkuð er um liðið hef ég sett af stað nýtt endurskoðunarferli með stýrihóp undir forystu reynds sendiherra sem skoðar hagsmunagæslu okkar til framtíðar. Hópurinn hefur samráð við atvinnulífið um það hvernig ráðuneytið og sendiskrifstofur erlendis geti sem best þjónað í þágu hagsmuna þjóðarinnar og atvinnulífs á mörkuðum erlendis. Horfa þarf til framtíðarinnar og skipuleggja starfsemina með langtímasýn og markmið að leiðarljósi. Vænti ég mikils af því starfi, en ætlunin er að ljúka þeirri vinnu í lok sumars og hafa þá í höndum gott og öflugt tæki fyrir starf okkar í utanríkismálum næstu ár.

Þegar horft er fram á veginn er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar mikilvægt veganesti. Hún kveður skýrt á um að grunnstoðir utanríkisstefnu Íslands eru samstarf vestrænna ríkja, evrópskt og norrænt samstarf, aðild að Sameinuðu þjóðunum og Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningurinn og friðar- og öryggissamstarf. Þar segir enn fremur að huga beri vandlega að samstarfi á norðurslóðum og að áfram verði lögð áhersla á viðskiptafrelsi og alþjóðlega samvinnu á sviði öryggis- og þróunarmála

Í þessari ræðu er ekki ætlunin að tína til öll þau efnisatriði sem eru í skýrslunni sjálfri heldur ætla ég að fjalla um fjögur áherslusvið; öryggi lands og þjóðar, nýjar áskoranir í utanríkisviðskiptum, mikilvægi auðlindanýtingar og umhverfismála og nýja sýn á þróunarsamvinnu.

Öryggis- og varnarmál eru eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. Hornsteinar varna landsins eru eftir sem áður varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og aðildin að Atlantshafsbandalaginu. Íslensk stjórnvöld hafa þá ábyrgð á hendi að tryggja trúverðugar og sýnilegar varnir og framlög til öryggis- og varnarmála. Stjórnmálaþróun í okkar heimshluta undanfarin misseri staðfestir mikilvægi Íslands fyrir sameiginlegar varnir vestrænna þjóða.

Á síðustu misserum hafa mikilvæg skref verið stigin í samhæfingu öryggis- og varnarmála Íslands. Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og lög um þjóðaröryggisráð, sem skipað verður innan tíðar. Þjóðaröryggisstefnan veitir heildstæða sýn á öryggis- og varnarmál í ljósi breyttrar heimsmyndar, nýrrar tækni og þeirrar áskorunar sem ríki heims standa frammi fyrir og auk þess áhersluþátta eins og hryðjuverka og netógna, umhverfisöryggis á norðurslóðum og náttúruhamfara.

Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hefur Ísland lagt áherslu á málefni Norður-Atlantshafsins og öryggismál á hafi, svo og varnaráætlanagerð vegna þess svæðis. Markvisst er unnið að því að tryggja varnir Íslands og styrkja samstarf innan bandalagsins. Bandaríkin og aðrir bandamenn okkar hafa sinnt loftrýmisgæslu við Ísland og hafa alls níu ríki staðið 26 vaktir frá árinu 2007.

Við munum áfram leggja okkar af mörkum til sameiginlega varna bandalagsins. Borgaralegum sérfræðingum hefur verið fjölgað í störfum innan þess og aukið við gistiríkisstuðning á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Rekstur varnarmannvirkja á öryggissvæðinu og starfræksla ratsjárkerfisins, sem nær yfir umfangsmikið svæði á Norður-Atlantshafinu, er veigamikil þáttur í framlagi Íslands til sameiginlegra varna bandalagsins.

Nú er í undirbúningi þátttaka í tveimur viðamiklum æfingum á vegum bandalagsins, annars vegar í kafbátarleitaræfingu sem fer fram sumarið 2017 og hins vegar í varnaræfingu sem verður haldin á næsta ári, haustið 2018. Auk þessa tekur Ísland árlega þátt í Northern Challenge æfingu bandalagsins, en markmið hennar er að æfa sprengingu og viðbrögð við hryðjuverkum.

Við munum taka virkan þátt í að verja grunngildi vestrænna samfélaga, lýðræði, mannréttindi, réttarríkið og frjálst hagkerfi. Að þessu miðar þátttaka í stöðugleikahvetjandi ríkjastarfi í Evrópu, einkanlega í starfi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, Evrópuráðinu í Strassborg og innan ýmissa svæðasamtaka eins og Eystrasaltsráðinu, en í ár gegnum við þar formennsku. Af þeim meiði er einnig norrænt varnarsamráð og sameiginleg yfirlýsing Íslands og Noregs um öryggis- og varnarmál sem nýlega var undirrituð.

Það var mikill samhljómur á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í lok mars. Ljóst er að bandalagið er og verður hornsteinn í samstarfi lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins. Stefna Bandaríkjanna er skýr í þá veru. Á fundinum ræddum við eflingu sameiginlegs varnarviðbúnaðar og viðnám fólks gagnvart nýjum öryggisáskorunum og sérstök áhersla hefur verið á að efla hefðbundnar varnir og viðveru bandalagsins í austanverðri Evrópu. Jafnframt var á fundinum samstaða um að leita leiða til að draga úr spennu, auka gagnsæi og traust í samskiptum við Rússland.

Eitt veigamesta verkefni íslenskra stjórnenda fram undan er viðræður um framtíðarskipan viðskiptanna við Bretland. Um þessar mundir er verið að greina áhrifin af Brexit og hagsmuni Íslands í því sambandi. Á síðustu vikum hef ég átt fundi með utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna, Þýskalands og sömuleiðis þeim fulltrúum í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem fara með þau mál. Á síðustu vikum hef ég átt fundi með utanríkisráðherra Bretlands og öðrum breskum stjórnmálamönnum. Á fundinum með breska utanríkisráðherranum vorum við sammála um að viðskipti landanna verði byggð á grunni sem veiti jafn góðan eða betri markaðsaðgang og nú er á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Við ætlum einnig að útvíkka reglubundið samráð til að ræða frekar sameiginleg hagsmunamál eins og sjávarútvegsmál og fiskveiðistjórnun, orku og umhverfismál.

Vart þarf að fjölyrða um mikilvægi Bretlands fyrir utanríkisviðskiptin. Útflutningur þangað árið 2016 var 11,3% sem setur Bretland í annað sæti á eftir Evrópusambandinu, þ.e. án Bretlands með 61% útflutnings. Hafa verður samt í huga að í útflutningstölum til ESB er útflutningur til Hollands 25%, en það er ljóst að hluti hans fer til ríkja utan Evrópusambandsins. Samskipti Íslands og Bretlands byggja á gömlum merg og vel þarf því að takast með þær viðræður sem fram undan eru.

Bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau hyggjast vera málsvarar fríverslunar. Þetta markmið samræmist vel íslenskum hagsmunum og vekur væntingar um að semja megi um enn betri markaðsaðgang fyrir íslenskan útflutning, einkum fyrir sjávarafurðir. Hagsmunir okkar í þeim efnum eru afar víðtækir og má nefna að tryggja þarf lendingarréttindi íslenskra flugfélaga á Bretlandseyjum og réttindi íslenskra ríkisborgara til dvalar, náms og starfa þar í landi.

Nú þegar umræðan hér á landi um viðskiptastefnu er að mestu laus við kröfurnar um aðild að Evrópusambandinu er full þörf á að styrkja starf okkar innan EFTA og EES. EES-samningurinn hefur augljósa kosti fyrir ríki eins og Ísland sem hefur mikla hagsmuni í Evrópusambandinu en hefur ekki viljað gerast aðili að því. EES-samningurinn hefur virkað vel en við þurfum að nýta betur möguleika hans. Nýr EES-gagnagrunnur þarf að geta veitt heildaryfirsýn yfir ferli EES-gerða allt frá mótunarstigi til upptöku í EES-samningnum og innleiðingar í íslenska löggjöf. Skipulega þarf að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri í umræðum um stefnumótun ESB, nýta möguleika sem Ísland hefur til að taka virkan þátt í mótun löggerða ESB og koma á framfæri afstöðu okkar við stofnanir og aðildarríki Evrópusambandsins og afla henni fylgis.

Íslenska hagkerfið er opið og hagvöxtur er drifinn áfram af útflutningi. Við eigum allt okkar undir fríverslun og aðgangi að mörkuðum nær og fjær. Samstarf innan EFTA er grundvallarþáttur í viðskipta- og fríverslunarstefnu Íslands. EFTA-ríkin vinna stöðugt að því að efla fríverslunarnet samtakanna. Tryggja þarf sem best íslenska hagsmuni í einstökum viðræðum, hvort sem er í nágrannalöndunum eða fjarlægum ríkjum í Asíu og Suður-Ameríku.

Fríverslunarnet EFTA nær nú til 870 millj. neytenda. Útflutningur EFTA-ríkjanna til samningsríkjanna hefur vaxið úr 6,5 milljörðum evra árið 2006 í 37 milljarða evra árið 2015. Hlutfall útflutnings til þessara ríkja hefur jafnframt vaxið úr 3% í 12,4% á meðan hlutdeild ESB hefur dregist saman úr 71% í 62%. Einnig má geta þess að hlutdeild evru í útflutningstekjum er 26,8%, en bandaríkjadals 57,5%.

Á síðustu árum hafa EFTA-ríkin eflt fríverslunarnet sitt og eru nú fríverslunarsamningar við 38 ríki. Á vettvangi EFTA standa til að mynda yfir viðræður við mikilvæg ríki eins og Indland, Víetnam, Indónesíu og Malasíu og viðræður eru að hefjast við Mercosur-bandalagið í Suður-Ameríku. Íslensk stjórnvöld styðja einnig dyggilega við viðleitni meðal aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar til að tryggja frekari opnun markaða og afnám hindrana í viðskiptum milli ríkja og stofnunarinnar.

Stöðugt vaxandi umsvif íslenskra flugrekenda hafa kallað á gerð tvíhliða loftferðasamninga. Flugiðnaðurinn er ein mikilvægasta atvinnugrein landsins á eftir heildsölu, smásölu og fiskveiðum og vinnslu. Heildarveltan er svipuð og í framleiðslu málma og nam hún hátt í 250 milljörðum kr. árið 2015. Nýverið hefur verið gengið frá samningum við Ísrael og er ætlunin að hefja beint flug á milli landanna í ár.

Fram undan eru viðræður milli Íslands og Rússlands um loftferðamál, en við höfum áhuga á að semja um yfirflugsheimildir yfir rússneska sambandsríkið. Slíkar yfirflugsheimildir gætu valdið straumhvörfum fyrir íslenska flugrekendur sem hyggja á flug til Kína, Indlands og Japan. Í aðdraganda funda minna með rússneskum ráðamönnum í Arkangelsk í lok mars var lögð sérstök áhersla á samningaviðræður um flugmál.

Við öllum áskorunum þarf því að bregðast og blása til sóknar þar sem tækifærin leynast á næstu árum, svo sem í nýmarkaðsríkjum í Asíu og Suður-Ameríku, að ógleymdri Afríku. Ísland þarf að laga sig að síbreytilegri heimsmynd í þeim efnum og leita markaða þar sem kaupgetan er mikil fyrir útflutningsvörur okkar. Utanríkisviðskiptastefnan hlýtur að taka mið af breytilegum mörkuðum, einkanlega miklum vexti millistéttanna í heiminum, hvort sem er í Asíu, Suður-Ameríku og ekki síst Afríku. Millistéttin í Kína er orðin fjölmennari en allir íbúar Bandaríkjanna og því er spáð að kaupmáttur millistéttarinnar á Indlandi muni aukast fjórfalt á næstu 30 árum og hafa þá farið fram úr Kína. Samanlagt mun neysla millistéttanna í þessum tveimur fjölmennustu ríkjum veraldar verða meiri en sambærileg neysla í Bandaríkjunum, Evrópu, öðrum ríkjum Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Utanríkisþjónustan þarf að hafa þá þróun í huga og aðlaga starf sitt og starfsvettvang að nýjum veruleika.

Fullur vilji er til að efla viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins og samstarf hennar við Íslandsstofu og aðra þá aðila innan lands sem hagsmuna eiga að gæta. Viðskiptaþjónustan er mikilvæg fyrir íslensk fyrirtæki á alþjóðlegum mörkuðum og aðila á sviði menningar, landkynninga og viðskipta. Allar sendiskrifstofur Íslands sinna viðskiptaþjónustu, ferðamálum og menningarkynningu í einhverjum mæli. Þetta þarf að efla og víkka út.

Hlýnun jarðar er ein mesta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir. Viðbrögð við loftslagsbreytingum eru því einn af meginþáttum í málflutningi Íslands á alþjóðavettvangi með sérstakri áherslu á áhrif loftslagsbreytinga á hafið og lífríki þess og á lífsafkomu á norðurslóðum. Það segir sína sögu um mikilvægi auðlindanýtingar á áhrif loftslagsbreytinga í starfi utanríkisþjónustunnar að þau mál eru til umfjöllunar í nær öllum skrifstofum utanríkisráðuneytisins og koma á borð hjá flestum sendiskrifstofum að einhverju leyti.

Ísland var á meðal fyrstu ríkja til að fullgilda Parísarsamninginn, en gildistaka samningsins verður að teljast mikilvægur áfangi fyrir mannkyn og stefnumörkun til framtíðar í loftslagsmálum. Fram undan eru samningaviðræður við Evrópusambandið og Noreg um hlutdeild Íslands í 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við árið 1990. Markmiði Parísarsamningsins um að stemma stigu við hækkun hitastigs á jörðinni verður helst náð með því að auka verulega hlut endurnýjanlegrar orku í orkunýtingu mannkyns.

Stuðningur við jarðhitanýtingu er því mikilvægur í samstarfi Íslands á vettvangi alþjóðastofnana á borð við Alþjóðastofnun um málefni endurnýjanlegrar orku, IRENA, átak SÞ um sjálfbæra orku fyrir alla og Alþjóðabankann. Markmiðið er að starfa með öðrum þjóðum sem hafa áhuga á að hraða nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og greiða fyrir aukinni fjármögnun verkefna á því sviði. Ísland átti frumkvæði að stofnun Jarðhitabandalagsins IRENA, en fjöldi aðildarríkja er nú 41, auk 27 stofnana sem taka þátt.

Samstarf Íslands á sviði endurnýjanlegrar orku fer einnig fram með tvíhliða samstarfi við einstök ríki, þar á meðal við nokkur ríki í Austur-Afríku. Beinir hagsmunir Íslands í baráttunni gegn slæmum áhrifum loftslagsbreytinga liggja fyrst og fremst í áhrifum þeirra á hafið og lífríki þess, hvort sem er á nálægum hafsvæðum eða hnattrænt. Í hafinu eru lífshagsmunir þjóðarinnar og hagsmunagæsla og málflutningur á alþjóðavettvangi í því sambandi eitt af meginviðfangsefnum utanríkisstefnunnar. Þetta þarf einnig að hafa í huga þegar ákveðin eru framlög til loftslagssjóða og verkefna á vegum ýmissa stofnana.

Vegna þessarar miklu hagsmuna hefur Ísland um árabil verið leiðandi í alþjóðlegu samstarfi um hafréttarmál og fiskveiðar, svo sem á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, og svæðisbundinnar fiskveiðistjórnar. Hið svokallaða bláa hagkerfi og málefni hafsins í víðara samhengi eru stöðugt til umfjöllunar í utanríkisþjónustunni, svo sem varnir gegn mengun og súrnun sjávar, vernd og nýting líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu, hnattræn áhrif breytinga á norðurslóðum og mikilvægi auðlindanýtingar í hafinu fyrir fæðuöryggi og efnahasglegar framfarir í þróunarríkjunum.

Góðar vonir eru bundnar við það að innan tíðar verði gerður samningur til að koma í veg fyrir stjórnlausar fiskveiðar í Norður-Íshafinu. Fram undan í júní 2017 er ráðstefna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York um 14. heimsmarkmiðið er lýtur að hafinu. Ísland undirstrikar mikilvægi jafnvægis milli sjálfbærrar nýtingar og verndar auðlinda hafsins á grundvelli vísindalegrar nálgunar. Þá hefur Ísland alltaf staðið vörð um hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna og þau réttindi sem hann tryggir ríkjum.

Málefni norðurslóða hafa orðið æ fyrirferðarmeiri á alþjóðavettvangi og tengist það ekki síst loftslagsbreytingum, umræðu um sjálfbæra nýtingu og vernd náttúruauðlinda, landgrunns- og fullveldiskröfum, samfélagsbreytingum og opnun nýrra siglingaleiða. Ljóst er að fá ríki eiga jafn mikilla hagsmuna að gæta í hagfelldri þróun svæðisins og Ísland. Norðurskautsráðið hefur fest sig í sessi sem mikilvægasti fjölþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um málefni norðurslóða.

Á ráðstefnu um málefni norðurslóða í Arkangelsk í lok mars lagði ég áherslu á að það sem gerist á norðurslóðum hefur áhrif langt út fyrir svæðið og á sama hátt hefur þróun fjarri norðurslóðum mikil áhrif á málefni svæðisins. Norðurslóðir eru nátengdar öðrum svæðum. Við erum því háð víðtækri samvinnu, hvað sem líður ágreiningsmálum annars staðar. Norðurslóðir eru ekki lengur á hjara veraldar heldur gegna lykilhlutverki í framtíð okkar allra.

Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu á árunum 2019–2021 gefur gott tækifæri til að styrkja stöðu Íslands í þeim málum á alþjóðavettvangi, taka virkari þátt í alþjóðasamstarfi sem stuðlar að umhverfisvernd, sjálfbærni og stöðugleika og vinna þar með að varanlegum hagsmunum Íslands.

Þróunarsamvinna er órjúfanlegur þáttur í utanríkisstefnu Íslands og lýtur lögmálum hennar. Þetta var undirstrikað þegar starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar var felld inn í utanríkisráðuneytið. Nú starfar einn samhentur hópur að allri alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Ráðgefandi hlutverk við stefnumótun hefur þróunarsamvinnunefnd, sem alþingismenn eiga sæti í sem og fulltrúar háskólasamfélagsins, atvinnulífsins og borgarasamtaka á sviði mannúðar og þróunarmála.

Á árinu 2016 námu framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu 6,9 milljörðum kr., eða 0,28% af vergum þjóðartekjum. Framlög til flóttamanna og hælisleitenda var stærsti þátturinn, eða 27,7% samkvæmt nýjustu tölum.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru leiðarljós í þróunarsamvinnunni og yfirmarkmið íslenskra stjórnvalda er að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli kynjajafnréttis, mannréttinda, að bæta fæðuöryggi og örva hagþróun á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar, að auka viðnámsþrótt samfélaga og flýta endurreisn með aukinni samhæfingu mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Í því samhengi er 14. heimsmarkmið um hafið afar mikilvægt með tilliti til þess hve mikla þýðingu auðlindanýtingin í hafinu hefur fyrir fæðuöryggi og efnahagslegar framfarir í þróunarríkjunum.

Í þróunarsamvinnu legg ég áherslu á tvennt. Annars vegar að við vinnum á þeim vettvangi þar sem við höfum meira og betra fram að færa en aðrir. Þarna nýtist sérþekking Íslendinga best í aðstoð og samvinnu við þróunarríkin. Á þetta einkum við um sérþekkingu í fiskveiðum og sjávarútvegi annars vegar og nýtingu jarðvarma hins vegar. Þegar er komin góð reynsla á starf okkar á þeim sviðum í þróunarlöndunum sem hvetur okkur til frekari dáða. Munum við starfa að þessu ýmist tvíhliða með samstarfsríkjum og í samvinnu við viðkomandi fjölþjóðastofnanir eins og FAO og Alþjóðabankann.

Hins vegar er mikil þörf á því að skoða alla möguleika á samvinnu við atvinnulífið um þróunarverkefni þar sem það er hægt. Ljóst er að opinbert fjármagn nægir ekki til til að ná heimsmarkmiðunum. Það þarf meira fjármagn. Þróunarsamvinna er þegar öllu er á botninn hvolft fjárfesting til framtíðar, hvort sem það er fyrir ríki sem þiggur slíka aðstoð eða fyrir það ríki sem veitir hana.

Flest helstu framlagsríki og fjölþjóðastofnanir í þróunarsamvinnu hafa nú innan sinna vébanda virkar starfseiningar sem sinna samvinnu við atvinnulífið og einkafyrirtæki. Huga þarf að myndun slíkra eininga í þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins sem eigi gott samstarf við viðskiptaþjónustu ráðuneytisins og Íslandsstofu og njóti þekkingar þessara aðila og sambanda þeirra við atvinnulífið.

Ísland hefur lagt umtalsvert fé til mannúðarstarfs á síðustu misserum. Þörfin fyrir mannúðaraðstoð hefur aldrei verið meiri en í dag, enda hefur aldrei verið jafn mikill fjöldi fólks, um 65 milljónir, í heiminum á flótta, flestir vegna langvarandi stríðsátaka, ofbeldis og ofsókna. Þessi mikla fjölgun flóttafólks síðustu ár hefur m.a. átt þátt í að auka straum þess til Evrópu og yfir Miðjarðarhafið. Eina leiðin til að stöðva þennan straum flóttafólks, sem langflest er frá óstöðugum svæðum í Miðausturlöndum, Afríku og Mið-Asíu, er að binda enda á drifkraftana sem knýr fólkið áfram, hvort sem það er stríð, hungursneyð eða almenn fátækt. Heimsmarkmiðin byggja á þeirri forsendu að friður og sjálfbær þróun séu órjúfanlega tengd.

Nú er unnið að nýrri áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands árið 2017–2021. Verður hún lögð fyrir Alþingi ásamt aðgerðaáætlun fyrir tímabilið 2017–2018. Ný stefna byggir á heimsmarkmiðunum. Einnig er fram undan að vinna úr niðurstöðum jafningjarýni þróunarnefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar og skoða með hvaða hætti hægt er að nýta tillögurnar sem þar koma fram til að styrkja starfsemina.

Árangursmat og úttektir skipa mikilvægan sess í verklegri þróunarsamvinnu, enda skila þær þekkingu um árangur verkefna og þann lærdóm sem draga má af því sem vel gengur og þess sem betur mætti fara. Unnið hefur verið markvisst að því að innleiða heildrænt kerfi úttekta og eftirlits á þróunarsamvinnuskrifstofu.

Þá er von á að starfshópur um framtíðarsýn og markmið íslensku friðargæslunnar skili af sér skýrslu. Á síðasta ári voru liðin 15 ár frá stofnun friðargæslunnar. Miklar breytingar og þróun hafa átt sér stað frá hinu alþjóðlega umhverfi og er mikilvægt að starf friðargæslunnar taki mið af því og þjóni áfram framgangi utanríkisstefnunnar.

Virðulegi forseti. Þróun í alþjóðastjórnmálum víða um heim gefur íslenskum stjórnvöldum tilefni til að skerpa á stefnu sinni í utanríkismálum og hagsmunagæslu og hvetja til þess að Vesturlönd standi þéttar saman um grundvallargildi sín; lýðræði, réttarríki, mannréttindi og frjálst hagkerfi. Öflug þátttaka í fjölþjóðasamvinnu er nauðsynleg til að bregðast við margvíslegum vanda sem steðjar að Vesturlöndum. Hryðjuverkaárásir í ýmsum borgum Evrópu undanfarin misseri kalla á eflingu löggæslu og víðtækt fjölþjóðlegt samráð um öryggismál. Með þeim árásum er vegið að grunngildum vestrænna samfélaga og öryggi allra borgara. Samstaða alþjóðasamfélagsins er einnig mikilvæg í viðbrögðunum við ógn á fjarlægari svæðum eins og á Kóreuskaganum þar sem óvissan í öryggismálum fer vaxandi.

Virðing fyrir mannréttindum er ein af grunnstoðum utanríkisstefnunnar og eru íslensk stjórnvöld víða málsvarar mannréttinda. Sérstök áhersla verður lögð á jafnrétti kynjanna og hefur umtalsverðri vinnu og fé verið varið til jafnréttisbaráttunnar á síðustu árum. Hvert tæki hefur verið nýtt til að halda á lofti jafnrétti kynjanna, réttindum hinsegin fólks og réttindum barna.

Hér að framan hefur aðallega verið drepið á fjóra þætti í utanríkisstefnunni, en ítarleg umfjöllun mín um fjölmörg málefnasvið sem utanríkisþjónustan vinnur að er í meginefni skýrslu minnar. Sem fyrr segir er þar lögð áhersla á markmið, mælikvarða starfsins og árangur þess starfs.