146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég ætla að fara beint í það sem hv. þm. vísaði í og ég náði ekki að svara í fyrra andsvari mínu. Í EES-samningnum er gert ráð fyrir að við getum haft áhrif á fyrstu stigum, það er sá tími sem er auðveldast fyrir okkur að hafa áhrif. Við getum svo sem haft áhrif á fyrstu stigum af því að þetta er í Evrópuþinginu. Við tökum lítið hlutfall af gerðum Evrópusambandsins inn í okkar löggjöf en það er samt umtalsvert mikið og það er það sem ég er að vísa til. Lengi er búið að vera að byggja upp mjög mikilvægan gagnagrunn þar sem við erum með allar EES-gerðirnar og hann á að vera aðgengilegur fyrir almenning og Alþingi. Inni í honum þurfa líka að vera hvítbækurnar þegar þetta fer af stað. Ég held að þetta snúist ekki bara um viðveru einstaklinga, heldur líka um að hagsmunasamtökin á Íslandi fái þetta þegar þetta er á þeim stað. Sömuleiðis þingið, ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við eigum að hafa hér fastanefnd sem er EES-/EFTA-nefnd sem myndi m.a. fjalla um þetta. Því fyrr sem við skoðum þetta, því fyrr sem við komum að þessu, því betra. Þetta er allt í þessari skýrslu sem er núna tíu ára gömul og var þverpólitísk samstaða um.

Þar eru ýmsar aðrar hugmyndir sem mér finnst vera góðar, m.a. um þingmannasamstarf þar sem menn skapa sér tengsl til að við getum haft áhrif þegar við þurfum að gera það. Oft erum við ósammála en oftast er samt þverpólitísk sátt um að við þurfum að hafa áhrif á einhverja þætti.

Síðan er hitt sem snýr að Noregi, þess vegna skrifaði ég undir samstarfsyfirlýsingu við norskan kollega minn um að við myndum vinna þétt saman að þessum málum. Það hefur gengið vel að vinna með Norðmönnum. Þeir eru miklu fleiri, þeir eru 5 milljónir og setja miklu meiri fjármuni í þetta almennt, m.a. út af því hvernig þeir eru staddir út af olíuauðnum, en það er annað mál. Samstarfið við þá hefur gengið vel og við eigum að halda því áfram. Svo er að sjálfsögðu Liechtenstein líka en við sækjum auðvitað miklu meira til Norðmannanna. Það samstarf getur verið í báðar áttir og við eigum að efla og styrkja það enn frekar.

Ég vona að þetta svari hv. þingmanni.