146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:54]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg sagt fyrir mitt leyti: Jú, ég vil að við hefjum aftur og höldum áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Ég var hins vegar að fjalla um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra þar sem hann var að berja það út af borðinu og segja að það væri búið spil, þrátt fyrir vilja þeirra flokka sem eru með honum í stjórnarsamstarfi. Ég spyr: Ef það er óábyrgt að vilja hefja slíka samninga til þess eins að kíkja í pakkann, þá gildir það ekki um okkur í Samfylkingunni; við vorum sannfærð og við ætluðum að ná nógu góðum samningi til að hægt væri að greiða atkvæði og jafnvel ganga inn. En hvað má þá segja um Sjálfstæðisflokkinn sem ætlaði að leyfa þjóðinni að ákveða hvort við kíktum í pakkann eða ekki? Ætlaði hann að leyfa þjóðinni að ákveða að kíkja í pakkann? En Sjálfstæðisflokkurinn var samt sem áður sannfærður um að við ættum ekki að gera það. Þetta var sem sagt bara pólitískt trikk til að komast yfir eina hindrunina á leiðinni að völdum að ný. Það ætti svo sem ekki að koma manni á óvart. Ég var í þessari umræðu að óska eftir því, svo að ég ítreki það í fjórtánda skiptið held ég, að allir stjórnmálaflokkar efni þau loforð sem þjóðinni voru gefin um að hún fái að taka ákvörðun um það hvort við hefjum aftur aðildarviðræður við Evrópusambandið.