146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

fjármálaáætlun og nýting skattfjár.

[14:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr hvað eigi að nota peningana í. Það er ákveðin aðferðafræði í gangi þar sem segir að í staðinn fyrir að setja fram ein fjárlög megi eiginlega segja að gerð sé atlaga að fjárlögum ríkisins í þremur áföngum. Í fyrsta lagi er sett fram fjármálastefna þar sem settur er fram hinn breiði rammi þar sem sagt er hver eigi að vera niðurstaða fjárlaga, hvernig skuldirnar eigi að standa og hvert umfang ríkisins sé. Það bætist reyndar vonandi aðeins í það í næstu fjármálastefnu. Svo kemur áætlun þar sem fjármagninu er skipt niður á málaflokka.

Ég heyri á mörgum hv. þingmönnum að þeir vilja ganga lengra í fjármálaáætluninni og skipta strax niður á einstök málefni, en það er ekki meiningin með fjármálaáætluninni heldur er meiningin að setja rýmið utan um málaflokkana þannig að í fjárlögum sé hægt, miðað við þessa áætlun sem menn munu að sjálfsögðu fylgja síðan í framhaldinu, að segja hvernig skipt verði á einstaka málaflokka. Þarna er verið að skapa ákveðið rými til frambúðar. Auðvitað er það svo, eins og hv. þingmaður gefur til kynna í spurningu sinni, að ráðuneytin sem leggja fram tillögur um rammana hafa í huga hvernig þetta hefur verið í fortíðinni, hver áformin séu um einstaka liði. Þau koma fram í hinni þykku skýrslu sem liggur frammi með fjármálaáætluninni. En það er ekki hugmyndin að leggja fram fimm ára fjárlög í áætluninni. (Gripið fram í.)