146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. menntamálaráðherra talaði á opnum fundi í morgun um vanda framhaldsskólans sem til er kominn vegna fækkunar nemenda, einkum vegna fækkunar í bóknámi við styttingu námstíma til stúdentsprófs en einnig af lýðfræðilegum ástæðum. Hugmyndir hæstv. ráðherra um hvernig best sé að leysa vandann kallar á margar spurningar um raunverulegan tilgang og markmið með breytingunum.

Hvernig má það vera, ef helsti vandi kerfisins er að fámennir skólar sem flestir eru úti á landi geta síður boðið upp á fjölbreytt námsframboð og veitt nemendum viðeigandi þjónustu, að lausnin sé að sameina tvo stóra starfsnámsskóla í Reykjavík og að Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík séu best til þess fallin að reka framhaldsskóla sem hefur þá sérstöðu að mennta starfsfólk til heilbrigðisþjónustu?

Engin fagleg rök eða viðmið fyrir mat á árangri sameiningarinnar liggja fyrir og ekkert er minnst á áætlanir í þessa veru í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þó að á hæstv. ráðherra hvíli lagaskylda í þá veru. Hv. þingmenn fá aðeins að vita um þetta í fjölmiðlum og starfsmönnum er haldið óupplýstum. Er nema von að menn séu hissa á því fúski sem hér á sér stað?

Önnur nýleg frétt sem vekur furðu er frétt um að þar sem Menntaskólinn við Sund hafi náð góðum árangri í að minnka brottfall nemenda og fleiri eldri nemendur séu því í skólanum en áður þá eigi að fækka nýnemum. Framhaldsskólar hafa árum saman glímt við að finna leiðir til að draga úr brottfalli nemenda. Fleiri íslenskir framhaldsskólanemendur hverfa frá námi en í öðrum OECD-ríkjum. Fjármunum sem varið er í að vinna gegn brottfalli er vel varið og styrkja þarf skólana til að gera enn betur á því sviði. Þegar það er gert þarf auðvitað að gera ráð fyrir því í fjármálaáætlun og í fjárlögum að skólarnir nái árangri en ekki krefjast þess að skólarnir innriti færri nýnema sem árangrinum nemur.