146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:25]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Einari Brynjólfssyni, fyrir þessa umræðu. Það er nefnilega svo að það ríkir almennt samkomulag um mikilvægi þess að byggja upp öflugt menntakerfi þar sem nemendur geta valið úr fjölbreyttum möguleikum til að finna nám við sitt hæfi. Við erum öll sammála um að menntun er lykill að velsæld þjóðarinnar. Við getum bæði stuðlað að fjölbreyttara atvinnulífi og betri lífskjörum með sterku menntakerfi. Á sama tíma þurfum við að gæta þess að nýta þá fjármuni sem fara í menntakerfið sem allra best með hagsmuni nemenda fyrir augum.

Það er ljóst að menntakerfið í heild hefur glímt við erfiða fjárhagslega stöðu en stendur líka fyrir ákveðnum skipulagslegum vanda. Við erum þó að bæta í með því að auka talsvert framlög á hvern nemanda en ég veit að þar má gera betur. Auknar fjárveitingar eru nauðsynlegar til að styrkja innviði skólanna en vandi skólanna verður ekki einungis leystur með auknum fjárframlögum heldur þarf að huga að skipulagningu skólakerfisins til framtíðar.

Þess vegna þurfum við m.a. að horfa til þeirra tækifæra sem geta falist í aukinni samvinnu milli skóla eða sameiningu þeirra. Samvinna eða sameining getur nefnilega bæði falið í sér aukna hagkvæmni að því er varðar rekstur skóla en getur einnig skilað sér í betri gæðum í kennslu og fjölbreyttara námsframboði fyrir nemendur. Vegna fækkunar nemenda þurfum við að bregðast við til að geta boðið upp á fjölbreytt nám, sérstaklega í sérhæfðu starfsnámi. Iðn- og verknám er kostnaðarsamt nám og því þarf að gæta að því að fækkunin bitni ekki á gæðum námsins með því að vera opinn fyrir breytingum.

Við göngum út frá því að nemendur hafi greiðan og jafnan aðgang að fjölbreyttu námsframboði og ef hægt er að tryggja það betur með samstarfi, samvinnu eða sameiningu þá fagna ég því. Við þurfum öll að vinna að því að skjóta sterkari stoð undir starfsnám á Íslandi. Sameiningar skóla á ekki einungis að ræða þegar um rekstrarvanda er að ræða heldur á að sjá hvort hægt er að nýta sér hagkvæmni til að styðja undirstöður námsins. Ólík og fjölbreytt rekstrarform eru jákvæð í kerfinu okkar. (Forseti hringir.) Með auknu sjálfstæði skóla njóta stjórnendur og kennarar svigrúms til að haga kennslu með þeim hætti sem þeir telja árangursríkastan. Ég treysti þeim til þess.