146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:27]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það þurfti Ríkisútvarpið, fréttastofu RÚV, til að upplýsa þing og þjóð, kennara, nemendur og annað starfslið Ármúlaskólans á fimmtudaginn var um að nú ætti að leggja Ármúlaskólann í heilu lagi inn í Tækniskólann ehf., einkahlutafélagið Tækniskólann. Þetta kom öllum á óvart en þó ekki alveg því að ráðherrann hefur viðurkennt að málið hafi verið í undirbúningi frá því í febrúar og að þingmönnum Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins hafi verið gert viðvart um málið og þeir hafi vitað af því að Tækniskólinn ætlaði að taka að sér aukið hlutverk, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hér í umræðu við upphaf þingfundar.

Þessi leyndarhyggja og baktjaldamakk er í hróplegri mótsögn, eins og hefur verið bent á, við allt hjalið um samráð og opna stjórnsýslu og hefur verið harðlega gagnrýnt. Það er ekki aðalatriðið að mínu viti. Ráðherra segist geta stofnað, lagt niður og sameinað framhaldsskóla að vild án aðkomu Alþingis. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvað næst? Er það svo að hæstv. heilbrigðisráðherra geti lagt Landspítalann eða hluta hans inn í annað einkarekið fyrirtækið, eigum við að segja Klíníkina?

Þetta hjal um fjölbreytt rekstrarform er ekki annað en yfirvarp yfir grófa einkavæðingarstefnu. Það er verið að hola innan menntakerfið okkar á sama hátt og við horfum upp á í heilbrigðisþjónustunni.

Ég ætla aðeins að segja hér að lokum að þegar við Vinstri græn erum spurð að því hvort við viljum einkarekstur eða ekki þá er það þannig að við erum ekki prinsipíelt á móti hagnaði, á móti hlutafélagaformi eða á móti einkarekstri. Við spyrjum þriggja spurninga: Er þetta betra fyrir nemendur og fyrir kennara? Er þetta betra fyrir menntakerfið í landinu? Er þetta betra fyrir skattgreiðendur? Svörin eru öll nei, því miður, og engin efnisleg rök að fá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)