146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Menn hafa komið víða við. Ég bið ágæta þingmenn að hafa í huga að við höfum lög um framhaldsskóla frá árinu 2008, sem vissulega þarf að endurskoða, ég skal vera fyrstur manna til að taka undir það. Þar liggur fyrir ákveðin stefnumörkun, það eru alveg hreinar línur um það. Aðalnámskrá fyrir framhaldsskólana er sömuleiðis stefnumörkun, hún var gefin út árið 2011. Þar er kveðið á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs á framhaldsskólastigi. Hvar getur stefnumörkunin verið skýrari? Síðan er stjórnkerfinu, Stjórnarráðinu, falin framkvæmd á þeim áherslum sem þar kom inn og til umfjöllunar. Það kann vel að vera að stefna einhverra stjórnmálaflokka í framhaldsskólamálum felist í því að koma þessari ríkisstjórn frá. Það er vel, en hún er ekki skýr sú stefna.

Ég fagna hins vegar heiftarlega, eins og við Svarfdælingar segjum, endurkomu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns Vinstri grænna, hér í salinn og heyri að hún hefur engu gleymt. Við erum algjörlega sammála að mörgu leyti, þ.e. að það eru þrjár meginspurningar sem spyrja ber. Munurinn á mér og hv. þingmanni liggur í því að hún er nú þegar með svörin í höndum en ég er að bíða eftir greinargerð ráðuneytisins sem leiðir fram svör við þessum meginspurningum. Mér sýnist og heyrist í umræðunni eins og margir þingmenn séu búnir að gefa sér fyrir fram hver niðurstaða þeirrar vinnu verður, annaðhvort með eða á móti sameiningu. Ég ætla að taka afstöðu til þeirrar spurningar þegar ég fæ í hendur gögnin sem verið er að vinna um þetta mál og þær meginspurningar sem svara þarf í þessum efnum.

Að öðru leyti þakka ég fyrir umræðuna og hv. málshefjanda fyrir að hafa tekið málið upp. Ég hlakka til að eiga við hann skoðanaskipti síðar og áfram um málið.