146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skipulag haf- og strandsvæða.

408. mál
[17:52]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um skipulag haf- og strandsvæða. Frumvarp þetta var unnið af starfshópi umhverfis- og auðlindaráðherra og í víðtæku samráði við ráðuneyti, stofnanir, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið gerði auk þess nokkrar breytingar á frumvarpinu í kjölfar umsagnarferlis þar sem frumvarpið var einnig kynnt á vef ráðuneytisins.

Skipulag á haf- og strandsvæðum er nýtt viðfangsefni í skipulagsmálum á Íslandi. Um þetta málefni hefur talsvert verið fjallað á undanförnum árum og ýmsar greiningar og skýrslur verið gerðar um stöðu mála. Þar hefur komið fram að fjölbreytni athafna á haf- og strandsvæðum hefur aukist og að aukin eftirspurn hefur leitt til þess að skýr þörf er fyrir gerð skipulags á þessum svæðum. Til að leggja slíka skipulagsskyldu á stjórnvöld og þar með skyldu til að framfylgja slíku skipulagi er nauðsynlegt að kveða á um gerð skipulags á haf- og strandsvæðum í lögum. Verði frumvarp þetta að lögum markar það tímamót þar sem ekki hafa áður verið sett lög um skipulag á haf- og strandsvæðum Íslands. Gildandi skipulagslög fjalla eingöngu um skipulagsáætlanir sveitarfélaga og taka til þeirra svæða sem eru innan þeirra lögsagnarumsagna.

Frumvarpið tekur meðal annars mið af markmiðum landsskipulagsstefnu 2015–2026 þar sem stefnt er að skýrri og skilvirkri stjórnsýslu skipulagsmála á haf- og strandsvæðum og sjálfbærri nýtingu og skipulagsgerð.

Í markmiðsákvæðum frumvarpsins er meðal annars gert ráð fyrir að skipulagið hafi þarfir landsmanna, heilbrigði og öryggi að leiðarljósi og að það veiti grundvöll fyrir fjölbreyttri og sjálfbærri nýtingu og vernd og að gætt sé að því að tryggja réttaröryggi, samráð og samvinnu. Í ljósi þess að skynsamleg nýting á haf- og strandsvæðum er hagsmunamál allra er mikilvægt að einhugur sé um ákvarðanatöku í þeim efnum.

Því er í frumvarpinu lagt til að stefna um skipulag haf- og strandsvæða verði ætíð mótuð í landsskipulagsstefnu. Þar verði jafnframt lagður grundvöllur að gerð strandsvæðisskipulags þar sem kveðið verði á um þau svæði sem skuli skipulögð hverju sinni.

Svæði sem skilgreind eru sem strandsvæði í frumvarpinu ná frá netlögum að tiltekinni viðmiðunarlínu á hafi úti. Svæðin eru því utan lögsagnarumdæma sveitarfélaga og þar með á forræði ríkisins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir gerð strandsvæðisskipulags á þeim svæðum sem skilgreind eru sem strandsvæði.

Lagt er til að umhverfis- og auðlindaráðherra skipi svokallað svæðisráð sem beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags fyrir tiltekið svæði. Gert er ráð fyrir að svæðisráðið verði skipað fulltrúum viðkomandi ráðherra sem myndi meiri hluta ráðsins sem og fulltrúum sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Skipulagsstofnun hefur einnig lykilhlutverki að gegna við framkvæmd laganna. Stofnuninni er meðal annars ætlað að hafa eftirlit með framfylgd skipulagsins, svo sem með leiðbeiningum til leyfisveitenda og þeirra sem nýta auðlindir haf- og strandsvæða. Stofnuninni er ætlað að annast gerð strandsvæðisskipulags í umboði svæðisráða og vera þeim til ráðgjafar. Þá er henni ætlað að fylgjast með þróun skipulagsmála, meðal annars til að greina þörf fyrir gerð og breytingu á tilteknu strandsvæðisskipulagi. Í frumvarpinu er sérstaklega vikið að hlutverki stofnana og vatnasvæðisnefnda sem eru svæðisráðum og Skipulagsstofnun til ráðgjafar og leggja fram nauðsynleg gögn vegna skipulagsvinnunnar.

Við gerð frumvarpsins var rætt um skort á yfirsýn yfir þá starfsemi sem stunduð er á haf- og strandsvæðum sem er háð ýmiss konar löggjöf og leyfum nokkurra stofnana. Sú frumskylda er því lögð á leyfisveitendur og framkvæmdaraðila að sjá til þess að allar framkvæmdir og starfsemi á haf- og strandsvæðum samræmist gildandi strandsvæðisskipulagi. Enn fremur er lögð sú skylda á leyfisveitendur að senda Skipulagsstofnun upplýsingar um útgefin leyfi sem stofnunin birtir í landsupplýsingagátt á vef stofnunarinnar.

Verði frumvarp þetta að lögum má ætla að ávinningur þess verði mikill fyrir hagsmunaaðila, sveitarfélög og í raun allt samfélagið sem heild.

Ákvörðun um nýtingu og vernd með gerð strandsvæðisskipulags mun byggja á stefnu sem samþykkt er af löggjafarvaldinu í kjölfar víðtæks samráðsferlis og verður strandsvæðisskipulagið unnið í samvinnu ríkis og sveitarfélaga á grundvelli tiltekinna markmiða þar sem meðal annars er horft til heildarhagsmuna almennings, fjölbreyttrar og sjálfbærrar nýtingar, sem byggist á vistkerfisnálgun og heildarsýn ásamt fleiri mikilvægum þáttum.

Með frumvarpinu fá sveitarfélögin aðkomu að ákvörðunartöku um nýtingu utan sinna lögsagnarumdæma og geta þannig staðið vörð um hagsmuni sína, þar á meðal þá er varða atvinnu- og byggðaþróun. Gera verður ráð fyrir að tilkoma strandsvæðisskipulags muni leysa þau vandamál er snúa að hagsmunaárekstrum og einfalda ákvörðunartöku um framkvæmdir og ferli leyfisveitinga þar sem byggt er á gildandi skipulagi vegna framkvæmda og starfsemi á tilteknu svæði.

Við gerð frumvarpsins var ljóst að eftirspurn eftir tiltekinni starfsemi á ákveðnum svæðum við strendur landsins hefur verið mikil. Þeir umsagnaraðilar sem tiltóku ákveðin svæði í því sambandi bentu allir á Vestfirði sem eitt af þeim svæðum sem mikilvægt væri að vinna sem fyrst strandsvæðisskipulag fyrir og þá aðallega vegna aukins fiskeldis. Í ljósi þess er í ákvæði frumvarpsins til bráðabirgða lagt til að vinna verði hafin við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Vestfirði á árinu 2018.

Auk framangreinds eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum til samræmis frumvarpi þessu, meðal annars skipulagslögum og að öðrum lögum er fjalla um einstakar leyfisveitingar. Meðal annars er lagt til að leyfisveitendur geti frestað ákvarðanatöku vegna leyfisumsóknar í ákveðinn tíma ef tillaga að strandsvæðisskipulagi fyrir viðkomandi svæði hefur þegar verið auglýst.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.