146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

Landhelgisgæslan og endurnýjun þyrluflotans.

[17:02]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Gæslan var við eftirlitsstörf í um 311 daga árið 2016. Þá beittum við í u.þ.b. helmingi tilvika nýja skipinu okkar en í hinum helmingnum minjagripnum Tý úr þorskastríðinu. Við verðum að skilgreina hvar þolmörk okkar liggja í öryggismálum. Ég veit að við mönnun og þjálfun í þau fáu störf sem bjóðast í Landhelgisgæslunni ræðst fyrirmyndarfólk. Það sinnir störfum sínum af einurð og gerir það besta sem mögulegt er í stöðunni hverju sinni. Við sem sitjum í þessum sal erum þau sem skilgreina starfsumhverfi þessa fólks. Það er á okkar ábyrgð að það þarf að sækja til annarra landa til að spara í eldsneytiskaupum. Eigum við ekki frekar að ákveða hve margar þyrlur við ætlum að starfrækja en að taka hér umræðu um hvort ráðlegt sé að nýta hagstæð skilyrði í gengismálum til að fjárfesta í nýjum þyrlum eða hvort téðar þyrlur hafi aðsetur annars staðar en í Reykjavík? Eiga þær að þjóna sjúkraflugi? Hverjir eiga að manna þær og hve oft?

Virðulegi forseti. Við þurfum að hátta okkar öryggismálum á landi og sjó á þann veg að við getum mannsæmandi tæklað verstu mögulegu niðurstöðu. Undirfjármögnun Gæslunnar er nokkuð sem við getum hreinlega ekki varið fyrir nokkrum manni.

Ég vil því að lokum mála upp heldur svarta mynd. Hefur einhver í þessum sal hugleitt hvernig við ætlum að bregðast við skipbroti á 5.000 manna farþegaferju? Ætlum við að senda á staðinn eina þyrlu, mælingabátinn Baldur og Tý, hálfmannaðan, vegna þess að Þór er í eldsneytistöku í Færeyjum og við getum ekki lengur hringt í Kanann?

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað hyggst ráðherrann gera í skipulögðu fjársvelti Gæslunnar? Telur ráðherrann að Gæslan geti sinnt sínu hlutverki með núverandi fjárveitingum?