146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

þjónusta vegna kvensjúkdóma.

302. mál
[18:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki heyrt betur en að ráðherrann hafi í svari sínu verið að staðfesta það sem kom fram á málþinginu. Sagan sem var sögð þar, en af því að nú er orðið svolítið langt síðan ég lagði þessa fyrirspurn fram og fundurinn var minnir mig að hún hafi verið sögð þannig að stúlka kom einmitt með óútskýrða verki inn á barnaspítalann og fékk þar, eins og það var orðað, morfínsprautu við því sem var metið sem prófkvíði. Það tengdist síðan því að stúlkan var greind með endómetríósu.

Þó að ég taki undir það sem komið hefur fram í umræðunni um mikilvægi þess að við framfylgjum þeirri ályktun sem Alþingi samþykkti og mikilvægi heilsugæslu í framhaldsskólum, þá held ég að það hljóti að þurfa að vera hluti af þeirri teymishugsun sem ráðherrann var að tala hér um, að menn festi sig ekki við einstakar deildir, eða það sem við köllum barnaspítalann, heldur að sérfræðingar starfi þar sem þörf er á að þeir starfi. Kvensjúkdómalæknar sinni líka barnaspítalanum, einfaldlega í ljósi sem ég benti á, í þessu tilfelli erum við að tala um stúlkur en drengi líka, að við erum langflest orðin kynþroska fyrir 18 ára aldur. Við erum líka með tölur sem snúa að kynheilbrigði, hversu Íslendingar eru ungir þegar þeir hafa kynmök í fyrsta sinn.

Við sjáum líka tölur, sem ég veit að ráðherrann hefur verið að bregðast við og við eigum eftir að ræða hér síðar í dag, sem snúa að kynsjúkdómum eins og klamydíu og kynfæravörtum sem eru hvað algengastar hér á landi í samanburði við önnur Norðurlönd. Þetta kallar einfaldlega á það að mínu mati að ráðherrann fari mjög vel yfir allt verklag (Forseti hringir.) og hvort hann geti þá í reynd fullyrt að það sé svo gott, ekki þannig að ég ætli að kenna Landspítalanum um þetta, heldur bara hvernig við sinnum börnum (Forseti hringir.) og ungmennum innan heilbrigðiskerfisins í heild.