146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

fóstur og fósturbörn.

469. mál
[19:34]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég vil enn og aftur þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég hygg að við séum sammála í þeim áherslum sem hún hefur haft fram að færa. Mér þótti það mjög umhugsunarvert, komandi nýr að þessum málaflokki fyrir skömmu síðan, hversu litlar upplýsingar, lítil samantekt virðist vera á því hvernig þeim börnum vegnar sem færð eru í fóstur, hvort sem er tímabundið eða varanlega, og hlýtur auðvitað að teljast ákveðinn áfellisdómur yfir kerfinu. Mér finnst þetta endurspegla hálfgert áhugaleysi á afdrifum barnanna og hversu lítinn metnað við leggjum í raun í mat á árangri, sem hlýtur að vera lykilatriði þessa máls. Hér er um gríðarlega alvarlegt inngrip í líf barna að ræða. Það er mjög afdrifarík ákvörðun sem þarna hefur verið tekin og væntanlega af ríkri ástæðu, en þeim mun mikilvægara er að við leggjum metnað okkar í að fylgjast með hvernig börnunum reiðir af og hvernig við getum bætt úrræði fyrir þau, bætt þjálfun og fræðslu til fósturforeldra, fjölgað þeim og svo fram eftir götunum.

Það verður verkefni mitt að hefja vinnu við nýja áætlun í barnavernd. Það verður án efa eitt af áherslumálum þeirrar áætlunar hvernig við getum styrkt þessi úrræði frekar og ekki síst styrkt eftirlitið og leiðsögn barnaverndaryfirvalda og Barnaverndarstofu sem og mat á árangri og annað.

Ég þakka aftur fyrir góða umræðu.