146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Daníel E. Arnarsson (Vg):

Frú forseti. Margt hefur breyst í heiminum á síðustu árum og ýmis viðhorf sem við töldum að heyrðu fortíðinni til hafa látið á sér kræla á ný. Öfgar og hræðsla sækja sífellt í sig veðrið, öfgar sem runnar eru af rótum þjóðerniskenndar og hræðslu við það fólk sem er einfaldlega ekki eins og við. Sá sem lætur stjórnast af ótta er hins vegar til alls vís og bregst sjaldnast við af skynsemi og rökhyggju. Á sama tíma og þeim vex ásmegin sem styðjast við einhvers slags hliðarsannleika eða sannlíki er hægara að finna hvers kyns fordómum farveg, jafnt hér heima og úti í heimi. Skoðana- og tjáningarfrelsi er notað sem yfirskin til þess að breiða út hatur og rangar skoðanir, en það eru viðhorf sem eiga hvorki við nein rök að styðjast né standast nánari skoðun. Þá eru þær ofsóknir sem nú eiga sér stað í Tsjetsjeníu einmitt ófögur birtingarmynd þess sem óupplýst orðræða hefur í för með sér. Einatt þarf að kveða slíkt hatur í kútinn án þess þó að beita ofbeldi eða annars konar öfgaleiðum heldur ber okkur að efla fræðslu, gagnrýna hugsun og umburðarlyndi þar sem hræðsla og öfgar þrífast ekki í upplýstu samfélagi. Rök eru nefnilega eina vopnið sem mannkynið þarfnast í baráttunni gegn öfgum þó að menn geti vissulega verið ósammála og tekist á með heilbrigðum rökræðum. Okkur ber ávallt að sýna fólki umburðarlyndi en röngum skoðunum ber okkur sömuleiðis að svara svo að þær falli ekki í frjóan farveg óskynsemi.

Á dögunum naut ég þeirrar ánægju að vera viðstaddur þegar nýkjörinn forseti Frakklands ávarpaði stuðningsmenn sína í fyrsta inn að loknum kosningum. Þar kusu Frakkar einmitt að hafna öfgunum og hálfsannleikanum. Ber okkur sjálfum skylda til að gera slíkt hið sama í hvert sinn og sýna fólkinu sem við vinnum fyrir nægilega virðingu til þess að láta stjórnast af skynsemi, umburðarlyndi og smá ást.