146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Ég lenti í ákveðnu vandamáli. Ég sé fyrir mér vissar aðstæður þar sem þingmenn gegna störfum og stöðum í stjórnum, ráðum eða nefndum sem fara með fjárveitingar. Ef ég vil ræða það eða bera það saman við eitthvað annað þá get ég séð það fyrir mér að við myndum ekki sætta okkur við að dómari væri settur í stjórn Rarik eða Isavia eða því um líkt. Ráðherra væri tvímælalaust ekki settur þangað, af hverju þingmaður?

Hvern ætti ég að spyrja? Við hvern ætti ég að eiga samtal hér á þingi um stefnumótun varðandi þetta, þennan brest í þrískiptingu valdsins? Ekki get ég farið í sérstakar umræður við einhvern ráðherra? Ég yrði væntanlega bara að tala við forseta þingsins, en forseti þingsins tekur ekki þátt í munnlegum samræðum þannig að fundarstjórn forseta á ekki við.

Mér er tjáð á skrifstofu þingsins að störf þingsins séu á einhvern hátt hönnuð fyrir þessar samræður, þar sem þingmenn geti talað hver við annan. Mig langar til að leggja það upp af því að það er ákveðið lágmark; störf þingsins skulu að lágmarki vera hálftími tvisvar í viku o.s.frv. Það þýðir að við getum haft fleiri umræður af þessu tagi. Við gætum haft sérstakan fund, klukkutíma kannski, um störf þingsins þar sem allir þingmenn gætu komið og talað um þetta. Er það rétt að þingmenn fari í ráð, nefndir og stjórnir þar sem verið er að útdeila peningum þegar hlutverk okkar er eftirlit með útdeilingu á peningum?

Það er til dæmis mjög skrýtið að formaður fjárlaganefndar sitji í stjórn þar sem peningum er útdeilt. Ef við sem fjárlaganefnd viljum spyrjast fyrir um hvernig peningum hafi verið eytt, hvort þeim hafi verið eytt í þetta eða hitt, á viðkomandi þingmaður þá að víkja úr forsæti sínu í nefndinni og verða gestur og útskýra málið? Ég skil þetta ekki.