146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég hóf mín fyrstu afskipti af pólitísku starfi þegar ég tók þátt í baráttu Húmanista fyrir því að koma málefninu Afnemum fátækt á dagskrá hér á Íslandi fyrir kosningar árið 1999. Við erum rík en við búum í landi þar sem allt of margir búa við mikinn skort. Mjög margir búa við slíkan skort að ekkert má út af bera til þess að fólk hafi ekki efni á að sinna grunnþörfum eins og að fara til tannlæknis, kaupa föt á börnin sín eða hreinlega eiga fyrir mat út mánuðinn ef dekk springur á bílnum. Þeir hópar sem þurfa hvað mest á stuðningi okkar að halda eru settir undir svokallaðar krónuskerðingar. Það má ekkert gera til að koma sér út úr spennitreyjunni. Það má ekkert gera til að koma sér upp úr fátæktinni. Ég man eftir því í eldgamla daga, þegar ég varð atvinnulaus, þegar netfyrirtækið sem ég var að vinna hjá fór á hausinn, að ég fór í bríaríi og fékk kennitölu eða virðisaukanúmer því að ég ætlaði að reyna að fá að vinna ofan á atvinnuleysisgjöldin en samt þannig að það yrði þá dregið af mér. En það mátti ekki, ég þurfti að fara og skila kennitölunni. Ég mátti ekki bjarga mér, þurfti annaðhvort að vera alveg atvinnulaus eða fá vinnu sem var ekki við hæfi.

Við erum enn alltaf að tala um sömu hlutina. Af einhverjum ástæðum, þegar maður horfir á þessa fjármálaáætlun, er eins og það sé ekki til nægur peningur til að halda úti grunnþjónustu. Þeir sem þurfa hvað mest á því að halda að hún sé ekki mjög dýr eru þeir sem eru fátækir. Við þurfum að fara að vinna í þessum málum á heildstæðan hátt, annars erum við alltaf bara að reyna að stoppa í göt á handónýtu kerfi. (Forseti hringir.) Hættum þessum krónuskerðingum nú þegar. Ég skora á hæstv. ráðherra að fara að gera eitthvað í því.