146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

523. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Valgerður Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil benda hv. þingmanni á það, þar sem hann er skipstjórnarmenntaður, að vel má vera að eldri menn séu með réttindi sem skemmri tíma tók að afla sér, en það er gerbreytt staða í dag og það veit þingmaðurinn. Ég vil hins vegar — komandi úr sjómannsfjölskyldu, hafandi átt föður sem var skipstjóri og tvo bræður skipstjórnarmenntaða, og tel mig því hafa einhverja þekkingu á þessu — benda þingmanninum á að það er eitt að hafa próf og annað að hafa verksvit og langa starfsreynslu. Ég fullvissa þingmanninn um að þeir fullorðnu menn sem verið er að bæta réttindamissinn hjá, þó svo að þeir hafi á sínum tíma ekki þurft að sitja jafn langan tíma á skólabekk, hafa þekkingu, reynslu og farsæld í starfi sem ég ber fullt traust til.