146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda (lán tengd erlendum gjaldmiðlum). Hér er um að ræða mál sem verið hefur til umræðu oft áður á Alþingi. Um það eru töluverðar deilur. Það snýst fyrst og fremst um lán tengd erlendum gjaldmiðlum, svokölluð gengistryggð lán, sem vöktu umræðu um þetta mál og hafa vakið deilur hér á fyrri stigum.

Með frumvarpinu er lagt til að opnað verði fyrir gengistryggð lán til óvarinna neytenda ef þeir hafa nægar tekjur til að standa undir verulegum sveiflum í greiðslubyrði lánanna. Það er álit minni hlutans að með þessu frumvarpi sé verið að greiða fyrir aðgangi efnaðs fólks, sem hefur tekjur til að standa undir gjaldmiðlasveiflum, að lánum sem ekki munu standa öðrum til boða.

Sterkur hvati er til að taka slík lán enda eru vextir víða erlendis mun lægri en hér, eins og við þekkjum öll. Vextir hér á landi hafa verið talsvert hærri en í öllum helstu viðskiptalöndum okkar. Eru fyrir því ýmsar ástæður sem ég ætla svo sem ekki að rekja hér, en það tengist bæði þeim gjaldmiðli sem við erum með hér á landi en ekki síður þeim hagvexti sem hér hefur verið sem verið hefur umtalsvert meiri en í helstu viðskiptalöndum okkar. Með því að ávaxta féð hér á landi geta lántakendur fengið í sinn hlut umtalsverðan vaxtamun. Sá ávinningur er ekki kostnaðarlaus fyrir samfélagið. Stýrivextir Seðlabanka Íslands hrífa síður ef efnafólk getur tekið gengistryggð lán á vöxtum sem eiga ekkert skylt við stýrivextina sem Seðlabanki Íslands ákveður hverju sinni. Á móti munu aðrir þeir sem ekki hafa efni á að taka slík lán þurfa að þola meira aðhald af hálfu peningastefnunnar og greiða hærri vexti en ella. Mikil erlend lántaka óvarinna lántaka getur líka magnað upp gengissveiflur og aukið fjármálaóstöðugleika. Líkur eru til að margir þeirra muni leitast samtímis við að kaupa gjaldeyri til að lágmarka gengistap ef krónan tekur að lækka. Það ýkir lækkunina sem hækkar verð innflutts varnings og eykur því verðbólgu. Því gæti þetta hækkað verðtryggðar skuldir hefðbundinna lántakenda.

Brýnt er að Seðlabanki Íslands hafi heimildir til að setja lánastofnunum reglur um útlán tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu, sér í lagi ef fram koma vísbendingar um að lánveitingarnar geti haft áhrif á fjármálastöðugleika. Því þurfa viðeigandi þjóðhagsvarúðartæki að vera til staðar til að hægt sé að grípa til viðeigandi aðgerða tímanlega. Minni hlutinn tekur undir áherslu sem Seðlabanki Íslands hefur sett fram að hann fái skýrt umboð til að beita því þjóðhagsvarúðartæki sem reglusetningin er.

Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að Eftirlitsstofnun EFTA telji bann íslenskra laga við gengistryggingu ekki samrýmast meginreglu EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði. Það er þó ekki svo að stofnunin hafi krafist þess að opnað verði fyrir gengistryggð lán til óvarinna lántaka. Ákvörðun um að útfæra þetta, bregðast með þessum hætti við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA er því pólitísk og verður ekki réttlætt með því að vísa ábyrgð til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Því má segja í stuttu máli að í frumvarpinu endurspeglist pólitísk ákvörðun um að greiða fyrir aðgangi efnafólks að ódýrri erlendri fjármögnun sem ekki mun standa öðrum til boða og verður, ef illa fer, á kostnað annarra í samfélaginu.

Minni hlutinn getur því ekki stutt framgang þessa máls. Það þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart sem hlýddi hér á umræður við 1. umr. og hefur fylgst með málinu og framgangi þess á fyrri stigum. Það verður að segjast eins og er að í þeirri ríkisstjórn sem nú situr hefur greinilega myndast meiri hluti fyrir því að heimila þessar lánveitingar því að sá meiri hluti náðist ekki fram í síðustu ríkisstjórn sem hér sat. Þessar lánveitingar til tiltekins hóps í efnafólks í samfélaginu skrifast því algjörlega á reikning þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

Undir þetta nefndarálit, sem ég hef nú farið yfir með nokkrum innskotum frá sjálfri mér, skrifa: Katrín Jakobsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Oktavía Hrund Jónsdóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.