146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns þá geta háskólarnir verið í samvinnu við framhaldsskólana um að veita þetta nám. Þá er í rauninni bara mjög augljóst að spyrja hvort það sé ekki eðlilegt að námi ljúki með stúdentsprófi fyrst einingafjöldinn er einmitt sá hinn sami og að klára kjarnabraut. Það er enginn ágreiningur t.d. innan LÍN um að nám á aðfarabraut sé á framhaldsskólastigi. Þessu til viðbótar er augljóst að framhaldsskólar geta veitt þá þjónustu ef það tekst þannig til í samningum við háskóla. Það er því allt sem segir að maður sé að klára framhaldsskólanám að loknu aðfaranámi ef maður hefur ekki klárað stúdentspróf áður sem er líka möguleiki. Ef þú ert með þennan pakka, 140 einingar, hefur ekki klárað stúdentspróf og bætir við þig þessum 60 einingum sem eru í aðfaranáminu, klárar þá 200 einingar sem er nóg til þess að fá stúdentspróf, er þá ekki mjög augljóst að þessu námi ætti að ljúka með stúdentsprófi?