146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[20:52]
Horfa

Daníel E. Arnarsson (Vg) (andsvar):

Takk fyrir andsvarið. Að sjálfsögðu eru sveitarfélögin himinlifandi að fá eitthvað til að sinna þessu. Það kemur mér ekkert sérstaklega á óvart að flest sveitarfélög fagni þessu. Samt verðum við að hafa í huga að Samband sveitarfélaga talaði um heildræna stefnumótun á þessu sviði og nefndi það í áliti sínu. Við verðum að skoða það líka.

Hvatinn er mögulega ekki til staðar hjá fólki sem ferðast með einkabílum, jú, hvatinn til að ferðast á einkabílum en hvatinn fyrir sveitarfélögin til að byggja upp einhvers konar þjónustu er meiri fyrir einkabílinn en þá sem ferðast með almenningssamgöngum. Það var það sem ég meinti. Ég biðst forláts ef það hefur ekki verið alveg skýrt.

500 kr. fyrir heilan dag, ég veit ekki hversu mörg stæði þyrfti þá, ekki er búið að fara í kostnaðarmat á því svo ég viti, til að það standi undir sér, hvað þá ef þetta eru ný stæði því að ný bílastæði eru mjög dýr, steypa og malbik eru dýrir hlutir.

Annars er það bara frábært með bíllausa lífsstílinn, ég styð það og kannski skrái ég mig í þau samtök. En það sem ég sagði var að auðvitað eru sveitarfélögin himinlifandi að fá hreinlega einhverjar krónur til að fara í aðgerðir. Ég vildi bara brýna fyrir því hvort ekki væri betra að fara í heildræna stefnumótun, t.d. með komugjöld og gistináttagjald í huga.