146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

viðurkenning erlendra ökuréttinda.

300. mál
[11:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Já, það er í mörg horn að líta þegar kemur að því að ræða slysin almennt. Ég fór aðeins yfir það áðan að þetta snertir í raun miklu fleira en þessi mögulegu ökuskírteini. Það er vandamál sem við þekkjum og ég hef heyrt þær sögur sem hv. þingmaður vísar til. Við höfum hins vegar ekkert fengið staðfest í þeim efnum. Þrátt fyrir að leitað hafi verið til bílaleigna, af því að við heyrum ýmsar sögur, hefur ekkert verið sérstaklega staðfest þar.

Það er áhugavert að hafa í huga að ef við horfum til banaslysa á síðasta ári þá voru þau 18 og þar af voru 14 Íslendingar, 2 ferðamenn og 2 innflytjendur. Það er áhyggjuefni hve Íslendingar koma við sögu í mörgum slysum. Ef við horfum á það hvernig við viljum draga úr slysum þá hefur þeim t.d. fjölgað gríðarlega vegna ölvunar og fíkniefna. Málið er því ekki einangrað við það sem hér hefur verið rætt. Málið er miklu stærra. Það snýr að umferðaröryggi í samgöngukerfinu, bættum merkingum, t.d. við einbreiðar brýr og slíkt, við vegkanta. Það sem ég rakti áðan, um merkingar, var gert í sparnaðarskyni á sínum tíma. Við höfum aukið framlögin verulega og ég vænti þess að þess muni sjá stað um allt land í sumar.

Það slösuðust 215 alvarlega í umferðinni, þar af 151 Íslendingur og 47 erlendir ferðamenn. Það er allt of hátt hlutfall. Þetta er allt of mikið. Við þurfum þess vegna að horfa til allra þessara þátta. Ég held að það sé sjálfsagt að skoða sérstaklega það mál sem hv. þingmaður spyr hér um og ræðir. En ég er bara að reyna að vekja athygli á því að það eitt og sér mun væntanlega ekki skila okkur þeim ávinningi sem við viljum sjá, þ.e. að það verði umtalsverð fækkun á slysum í umferð á Íslandi. Þar þurfa fleiri þættir að koma til, aukin fræðsla og miklu betri samgöngumannvirki, átak á þeim vettvangi. Ég held að það geti leitt okkur mjög sterkt fram veginn í þessum efnum.