146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

útlendingar.

544. mál
[18:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingar á lögum um útlendinga frá allsherjar- og menntamálanefnd. Ég var reyndar ekki viðstaddur þann fund nefndarinnar þar sem málið var afgreitt en ég er eðli máls samkvæmt fylgjandi því þar sem verið er að leiðrétta misbresti í gildandi lögum.

Mig langar hins vegar að víkja aðeins að þeirri staðreynd að í þriðja sinn síðan ég settist á þing, sem var bara fyrir sjö mánuðum, erum við að breyta þessum lögum vegna einhverra leiðréttinga. Við settum inn bráðabirgðaákvæði rétt fyrir jól. Stuttu eftir að þing kom saman kom ráðherra með frumvarp þar sem tilgangurinn var að leiðrétta prentvillu, eins og hún sagði. Núna erum við enn að leiðrétta mistök sem urðu við setningu þessara heildarlaga, sem eru nú ekki einu sinni orðin ársgömul. Það fær mann til að setja spurningarmerki við gæði lagasetningar.

Ég var á fyrirlestri hjá Hauki Arnþórssyni stjórnsýslufræðingi um daginn þar sem hann var búinn að taka saman tölur um þetta. Einn af þeim mælikvörðum sem honum sýndist vera hægt að beita til að meta gæði lagasetningar var að skoða hversu oft lögum væri breytt á fyrstu árum eftir setningu þeirra. Ég efast um að Haukur myndi gefa okkur mjög háa einkunn fyrir að vera núna að leiðrétta heildarlög um útlendinga í þriðja skiptið. Svo er þetta ekki einu sinni eina dæmið. Eins og ég segi er ég búinn að vera hérna í sjö mánuði og get nefnt nokkur.

Án þess að hugsa sérstaklega lengi um það detta mér í hug lög um dómstóla, sem við þurftum að breyta hér fyrr í vetur og erum núna aftur með frumvarp um á þingi. Í bæði skiptin erum við að breyta lögunum vegna þess að lögin tóku einhvern veginn ekki nógu vel utan um það kerfi sem innleiða átti með nýju millidómsstigi, Landsrétti. Það er ekki mjög uppörvandi að verið sé að innleiða annaðhvort nýja heildarlöggjöf eða nýtt millidómsstig og svo eftir á áttar þingið eða ráðuneytið sig á að breyta þarf kerfinu af því að það gleymdist að gera ráð fyrir því að nefnd um hæfi dómara hefði lagastoð til að meta hæfi umsækjenda um stöður hjá Landsrétti. Það gerðum við núna fyrr á árinu. Eða eins og hér, þar sem einhvern veginn gleymdist óvart að hugsa um þann hóp sem hefur árum saman fengið dvalarleyfi á Íslandi en féll einhvern veginn á milli skips og bryggju.

Svo ég sé ekki bara að berja á innanríkis- og nú dómsmálaráðuneytinu má nefna önnur dæmi, frumvörp um skógrækt og landgræðslu, sem við bentum á við 1. umr. að hefðu skolast það hressilega til að greinargerð við frumvarp um skógrækt vísaði til þess að hér værum við að fjalla um lög um landgræðslu, og svo öfugt. Þannig að enn fjarar undan — ég ætla ekki að segja trausti, en ég fyllist ekki öryggiskennd þegar ég fæ í hendurnar stóra lagabálka og veit að innan árs verðum við mögulega búin að þurfa að grípa í taumana þrisvar, eins og í þessu tilviki, til þess að laga mistök sem gerð voru einhvers staðar á leiðinni, komust í gegnum ráðuneyti og þing án þess að þeirra yrði vart.

Hver lausnin er veit ég ekki. Lög um útlendinga eru t.d. 125 greinar þannig að það er kannski eðlilegt að tekið hefði langan tíma að villuprófa þau. Innleiðing Landsréttar í lög um dómstóla er líka flókið verkefni. Við þurfum kannski að vanda okkur betur. Við þurfum að styrkja samtalið milli ráðuneyta og þings. Við þurfum að efla sérfræðikunnáttu innan þingsins til að rýna þá lagabálka sem við viljum innleiða. Ég vil ekki þurfa að standa í því áður en þetta ár er úti að taka upp einhver af þeim lögum sem við munum samþykkja nú fyrir þinglok vegna þess að við höfum ekki vandað okkur nóg, vegna þess að við höfum hleypt í gegn einhverjum kerfisvillum, eins og t.d. að gleyma erlendum skiptinemum sem komið hafa hingað til lands og fengið dvalarleyfi af þeim ástæðum.

Við þurfum að vanda okkur betur til að lög standist tímans tönn. Þá erum við ekki endilega að tala um áratugi, byrjum á því að láta þau standa í eitt ár án þess að við þurfum að breyta þeim. og sjáum hvort við getum síðan gert þau enn betri.