146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

lánshæfismatsfyrirtæki.

401. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu Hjaltested og Guðbjörgu Evu Baldursdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Dóru Sif Tynes lögmann, Hildi Jönu Júlíusdóttur og Rúnar Örn Olsen frá Fjármálaeftirlitinu og Ólaf Ásgeirsson frá Reitun ehf. Umsagnir bárust frá Fjármálaeftirlitinu, Reitun ehf. og Samtökum fjármálafyrirtækja.

Með frumvarpinu er lagt til að reglugerð (EB) nr. 1060/2009 um lánshæfismatsfyrirtæki verði færð í lög hérlendis. Í reglugerðinni eru ákvæði um starfsemi lánshæfismatsfyrirtækja, m.a. um hagsmunaárekstra, gagnsæi, skráningu og eftirlit, og notkun á lánshæfismötum. Í frumvarpinu eru einnig ákvæði varðandi framkvæmd reglugerðarinnar, svo sem um eftirlit, upplýsingagjöf og viðurlög við brotum.

Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar innan Evrópusambandsins ásamt eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja. Við upptöku reglugerðarinnar í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið var sú aðlögun gerð að fela Eftirlitsstofnun EFTA í megindráttum valdheimildir sem tilheyra Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni innan Evrópusambandsins. Þó er gert ráð fyrir að Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin eigi verulega aðkomu að ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA og annist m.a. að talsverðu leyti sérfræðilegan undirbúning þeirra. Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á nauðsyn þess að Eftirlitsstofnun EFTA hafi burði til að taka sjálfstæðar ákvarðanir á grundvelli reglugerðarinnar en verði ekki með öllu háð sérþekkingu Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar eigi markmið tveggja stoða lausnarinnar, sem liggur til grundvallar upptöku evrópska eftirlitskerfisins á fjármálamarkaði í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, að nást.

Í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að reglugerð (EB) nr. 1060/2009 með síðari breytingum fái lagagildi með aðlögunum samkvæmt ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í 2. mgr. sömu greinar er lagt til að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar skuli jafnframt hafa lagagildi. Að mati meiri hlutans er nægjanlegt að reglugerðin með aðlögunum samkvæmt ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar fái lagagildi en óþarft að lögfesta ákvarðanirnar í heild sinni. Meiri hlutinn leggur því til að 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins falli brott en að vísun málsgreinarinnar til EES-viðbætis við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins færist í 1. mgr. greinarinnar.

Í 2. og 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um heimildir Eftirlitsstofnunar EFTA og Fjármálaeftirlitsins til að beita stjórnvaldssektum vegna brota á ákvæðum reglugerðarinnar. Meiri hlutinn leggur til að vísað verði til Fjármálaeftirlitsins í 4., 5. og 8. mgr. greinarinnar til að skýra að málsgreinarnar eigi aðeins við um sektir sem Fjármálaeftirlitið ákveður en ekki sektir sem Eftirlitsstofnun EFTA leggur á.

Í 5. mgr. 3. gr. frumvarpsins segir að við ákvörðun stjórnvaldssekta skuli m.a. tekið tillit til allra atvika sem máli skipta. Meiri hlutinn leggur til að skammstöfunin „m.a.“ falli brott enda á við ákvörðun sektanna vart að taka tillit til annars en allra atvika sem máli skipta.

Í 6. mgr. 3. gr. frumvarpsins segir að séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skuli greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Meiri hlutinn leggur til að skýrt verði að dráttarvextir leggist ekki á stjórnvaldssektir fyrr en að liðnum mánuði frá því að viðkomandi var tilkynnt um sektarákvörðun.

Með orðunum „almennar rannsóknir og vettvangsskoðanir“ í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins er átt við þær ráðstafanir sem fjallað er um í 1. mgr. 23. gr. c og 23. gr. d reglugerðar (EB) nr. 1060/2009. Til skýringar leggur meiri hlutinn til að vísað verði til reglugerðarákvæðanna í frumvarpsákvæðinu.

Í 5. og 6. gr. frumvarpsins er fjallað um upplýsingagjöf til evrópskra eftirlitsstofnana og stofnana innan Evrópska efnahagssvæðisins. Með hliðsjón af ábendingum í umsögn Fjármálaeftirlitsins leggur meiri hlutinn til að fremur verði vísað til ákvæða nýsamþykktra laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði um efnið.

Að tillögu fjármála- og efnahagsráðuneytis leggur meiri hlutinn til að við 9. gr. frumvarpsins verði bætt heimild fyrir Fjármálaeftirlitið til að setja reglur sem byggjast á tæknilegum eftirlitsstöðlum á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 1060/2009.

Reitun ehf. lagði til að gildistöku laganna yrði frestað í 12 mánuði eða að veitt yrði tímabundin undanþága frá lögunum. Reglugerð (EB) nr. 1060/2009 er frá 2009 og var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið 2012. Reglugerðir (ESB) nr. 513/2011 og 462/2013 eru frá 2011 og 2013 og voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið í september 2016. Aðdragandi frumvarpsins er því talsverður. Ísland er skuldbundið samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til að innleiða reglugerðina og er hún til þess fallin að bæta gæði lánshæfismata og treysta þannig fjármálamarkaði. Meiri hlutinn leggur því ekki til að gildistöku laganna verði breytt.

Aðrar breytingartillögur skýra sig sjálfar.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Hér með vísa ég þessu máli til 3. umr.