146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

lánshæfismatsfyrirtæki.

401. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um að styrkja þurfi ESA til þess að það nái að halda sjálfstæði sínu er varðar ákvarðanatöku. Það þarf að vera nægileg sérfræðiþekking á öllu því breytta regluverki sem er verða núna að því er varðar fjármálakerfið, þannig að ég tek heils hugar undir þær athugasemdir sem fram koma í máli hv. þingmanns. Ég tel þó að tveggja stoða lausnin eins og hún var kynnt og samþykkt á síðasta þingi eigi að geta gengið upp. Hins vegar er það svo að EFTA-þingmannanefndin og þeir sem sinna EFTA-málefnum þurfa að vera vel vakandi fyrir þessari þróun og að vera í stakk búnir að styrkja ESA og fylgjast mjög vel með því að viðkomandi stofnanir geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir.

Virðulegi forseti. Ég tel að málið í heild sinni sé gott. Þarna er verið að styrkja regluverk og umgjörð er tengist lánshæfismatsfyrirtækjunum. Fyrir hið alþjóðlega fjármálaáfall skorti verulega á þar um. Áhrif þessara fyrirtækja hafa verið umtalsverð og þau hafa gert talsverð mistök í fortíðinni. Þá er ég ekki þar með að segja að það verði ekki svo í framtíðinni, en hins vegar tel ég að með þessu aukna regluverki sé komið meira aðhald að þeim. Ég tel að það verði fjármálakerfinu til heilla.