146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

lánshæfismatsfyrirtæki.

401. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég fagna því að við séum sammála um að það er mikilvægt að tryggja að ESA hafi mannskap og fjármagn til að sinna þessu mikilvæga hlutverki sem búið er að fela því með tveggja stoða lausninni. Tveggja stoða lausnin var eina raunhæfa leiðin þegar farið var í þá vinnu að innleiða þá móðurgerð sem allt þetta evrópska eftirlitskerfi byggist á þó að það sé mín skoðun og minni hlutans þá á Alþingi að hún dygði samt ekki til til þess að standa undir því sem við teljum að segi í stjórnarskrá okkar hvað varðar framsal valdheimilda.

Hv. þingmaður talar um lánshæfismatsfyrirtækin. Það er hárrétt að þau eru nú að fara undir miklu snarpara eftirlit og ég tók það fram í máli mínu, við erum sammála um markmiðin með frumvarpinu.

Ég vil þó segja að við hljótum líka að velta því fyrir okkur að lánshæfismatsfyrirtækin eru gríðarlega valdamiklar stofnanir sem aldrei var ákveðið að fengju allt það vald sem þau hafa í raun tekið sér á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Þau hafa tekið sér mikið vald. Þau hafa haft lykilvald til að ákvarða í raun örlög þjóða og örlög fyrirtækja með úrskurðum sínum.

Það er eitt af því sem mér finnst mikilvægt að pólitíkusarnir ræði, það er rætt víða í Evrópu, þ.e. að við erum að innleiða hér eftirlitskerfi til að koma böndum á markað sem fór úr böndum eftir að hann hafði verið afregluvæddur og allt gefið frjálst af því að allt átti bara að ráða sér sjálft og markaðurinn átti að leysa málin sjálfur. Þess vegna nefndi ég að það væri líka mikilvægt að meta árangur af reglusetningunni, því að við þurfum auðvitað að velta því fyrir okkur hvaða raunverulegu áhrif þessi reglusetning mun hafa. Hvaða raunverulegu áhrif mun hún hafa? Hverju mun hún skipta t.d. fyrir valdastöðu lánshæfismatsfyrirtækjanna? Það er verkefni sem bíður okkar, stór og mikil umræða. En ég er (Forseti hringir.) bara að segja að við getum aldrei slakað á gagnvart því verkefni sem fjármálamarkaðurinn er eins og hann lítur út núna.