146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

505. mál
[19:02]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, á þskj. 811. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tveimur ákvæðum laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Annars vegar er lagt til að heimild samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laganna til að taka út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum verði látin ná til samningsbundinna afborgana höfuðstóls lánaskuldbindinga fyrir lokagjalddaga og verðbóta þeirra og úttektir samkvæmt ákvæðinu verði ekki lengur háðar staðfestingu Seðlabanka Íslands heldur aðeins tilkynningarskyldar til bankans. Hins vegar er lagt til að hámarksúttekt hvers einstaklings samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laganna hækki úr 1 millj. kr. í 100 millj. kr.

Efnahags- og viðskiptanefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt. Undir álitið ritar sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, og hv. þingmenn Vilhjálmur Bjarnason, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis, Birgitta Jónsdóttir, Brynjar Níelsson, Jón Steindór Valdimarsson, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

Ég vil þó geta þess að nefndinni bárust seint í gærkvöldi ábendingar frá Seðlabanka Íslands um orðalag og breytingu á frumvarpinu. Ég legg til að málinu verði vísað til 3. umr. en fari um leið til efnahags- og viðskiptanefndar til að ganga frá og taka afstöðu til þeirra ábendinga sem Seðlabanki Íslands hefur komið með.