146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:27]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún er yfirgripsmikil og nefndarálitið líka. Ég get tekið undir margt af því sem þar er sagt. Ég hef sérstakar áhyggjur af heilbrigðisþjónustunni í landinu ef fara á eftir þessari ríkisfjármálaáætlun, en það er auðvitað fleira og ég er sammála því sem hv. þingmaður taldi upp varðandi samgöngur og menntamál og málefni fatlaðs fólks og fleira.

Landlæknir hefur gagnrýnt hvernig málum er háttað og reyndar gagnrýnt samning við sérgreinalækna og áhrifin sem þeir samningar hafa og það fyrirkomulag allt saman á þjónustu við sjúklinga á Landspítalanum sérstaklega, en það á líka við um Sjúkrahúsið á Akureyri.

Í McKinsey-skýrslunni sem gefin var út fyrir ekki svo löngu síðan, í fyrra, tala þeir sem greina rekstur Landspítalans einnig um að þar sé ákveðið vandamál á ferðinni.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að það þurfi að grípa til sérstakra ráðstafana og hvort það þýði ekki að þegar verið er að breyta um stefnu þurfi Landspítalinn að fá aukið fjármagn. Hvernig sér hv. þingmaður að brugðist sé við ábendingum landlæknis og McKinsey-skýrslunnar um rekstur Landspítalans í fjármálaáætlun? Þarna er um stórmál að ræða sem varðar öryggi sjúklinga og líf og limi fólksins í landinu.