146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:59]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áhyggjuefni? Já. Þá er það afgreitt. Það býst enginn við hárnákvæmni í framsetningu á tölum eða skiptingunni á upphæð málefnasviðsins. Það er bara verið að biðja um hugmyndir og áherslur, svona um það bil. Maður skilur að síðan komi nákvæmari tölur þegar fjárlögin eru sett fram. Það eina sem maður leitar þá að er hvort vikið sé mikið frá þeim tölum sem settar voru fram í fjármálaáætluninni. Ef sett er fram í fjármálaáætlun að lögð verði áhersla á löggæslumál umfram aðra málaflokka á því sviði, og svo kemur að fjárframlög til Landhelgisgæslunnar hækka hlutfallslega meira, þá veltir maður fyrir sér: Bíddu, þetta er ekki samkvæmt áætlun. Það eru a.m.k. svona upplýsingar sem maður vill fá. Það sama á við um fjármálastefnuna. Í fjármálastefnunni á að setja fram áherslur gagnvart málefnasviðunum þannig að maður viti nokkurn veginn forgangsröðunina og skilji hana þegar maður fær fjármálaáætlunina í hendur. Allt í lagi, þetta var það sem lofað var.

Sú togstreita sem hv. þingmaður minntist á kemur fram í áliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar og ég býst við að hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fari yfir það í ræðu sinni hér á eftir þegar hún fer yfir umsögn sína til fjárlaganefndar, en þær voru ansi góðar margar.