146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú erum við komin inn á annað fagsvið sem er ekki mitt sérsvið, en það er sálfræðin, sem ég held að hafi ráðið för hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni þegar hann sagði að hækkunin á ferðaþjónustunni væri það umdeildasta, að færa hana upp í efra þrep virðisaukaskattskerfisins. Þegar það er vandamál heima hjá manni á maður það til að svara út frá því vandamáli, jafnvel fara að verja það þó að enginn sé að spyrja um það. Svar hv. þm. Haraldar Benediktssonar segir okkur það eitt að það er vandamál á ríkisstjórnarheimilinu þegar kemur að því að færa ferðaþjónustuna upp um virðisaukaskattsþrep því að þau eru ekki sammála. Þau samþykktu að leggja hér fram áætlun sem síðan er bullandi ósætti um. Að sjálfsögðu, og það sagði ég í ræðu minni þó að ég hafi beint sjónum að tekjuhliðinni, eru stóru ágreiningsmálin að mínu viti málin sem við ræddum einmitt svo mikið fyrir kosningar; heilbrigðismálin, sem voru mál málanna, skólamálin. Við horfum upp á þrengingar bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi. (Forseti hringir.) Og húsnæðismálin, sem ég náði ekki að nefna og ætla að nefna í næstu ræðu. Það er gríðarlegur ágreiningur um þessa stóru útgjaldaþætti.