146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, og ég þakka henni andsvarið. Mikið er rætt um tímaskort í þessu öllu saman. En er vandamálið ekki tvíþætt? Tíminn er, held ég, ekki vandinn; ég er sammála hv. þingmanni um það. Vandamálið er að plaggið er lagt fram án þess að það hafi verið nægjanlega reifað í stjórnarflokkunum. Ágreiningurinn, sem augljóslega er um þessa áætlun innan ríkisstjórnarinnar, kemur fram eftir að plaggið hefur verið lagt fram. Þá er auðvelt að benda á tímaskort og eitthvað annað til að dreifa athyglinni frá því. Og hins vegar er það, sem ég tel raunar að við þurfum að skoða, sem lýtur að hinum efnahagslegu forsendum. Við sjáum í umsögn fjármálaráðs að við þurfum að hafa betri umbúnað um þessa áætlun og sjá til þess að fullnægjandi greiningartæki séu til staðar. Það er eiginlega ekki hægt að bjóða okkur upp á að afgreiða plagg sem er þannig gert að (Forseti hringir.) nánast allar forsendurnar fyrir því eru dregnar í efa í umsögn ráðsins sem fjallar um málið. Ég held að málið snúist ekki um tíma, ég held að það snúist um allt aðra þætti, frú forseti.