146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Já, það er kannski ekki að undra að margir séu á mælendaskrá um þetta mál. Talað hefur verið um þetta sem stærsta mál ríkisstjórnarinnar, reyndar eitt af mörgum. Lengi vel var hvert einasta mál sem þessi ríkisstjórn kom með stærsta mál yfirstandandi kjörtímabils. Það er nú gott þegar menn eru ánægðir með það sem þeir gera.

Ég hef minnst á það einu sinni eða tvisvar hér í þessum ræðustól að ég er einfaldur maður — og hví að hætta að segja það sem er satt? Ég er það svo sannarlega og þegar kemur að stjórnmálum er ég enn einfaldari maður en á mörgum öðrum sviðum. Þar gildir það fyrir mér að segja satt, tala skýrt og standa við það sem maður segir. Það þarf ekkert að vera miklu flóknara en það, tala skýrt um það hvað maður vill gera, standa við það sem maður segir satt um að maður ætli að gera.

Mér þótti gaman að taka þátt í kosningabaráttunni í haust. Það var mikið af eldhugum í framboði, voru með alls kyns hugmyndir um bætt og betra samfélag. Það átti að ganga í innviðauppbyggingu sem mjög hafði skort á árin á undan. Ég var bjartsýnn fyrir hönd íslensku þjóðarinnar því að það virtist nánast vera sama hvernig úrslit kosninganna yrðu, allir flokkar ætluðu sér að setja stóraukna fjármuni í innviði, stóraukna fjármuni í velferð, stóraukna fjármuni í samneyslu, að ekki sé talað um blessað heilbrigðiskerfið. Ég var á mörgum fundum þar sem hver og einn einasti fulltrúi hvers flokks lofaði því að standa við markmið undirskriftasöfnunarinnar frægu. En svo voru kosningar og úrslit og allt í einu kvað við nýjan tón. Ég þarf ekki að fara yfir það. Þótt ég sé sagnfræðingur þarf ég ekki að rekja þetta í smáatriðum en mér finnst gott að hafa þetta í huga þegar ég hlusta á umræður hér um ríkisfjármálaáætlun næstu fimm ára.

Mér finnst líka gott að hafa í huga þá mynd sem ég hef í kollinum af þremur oddvitum hæstv. ríkisstjórnar að kynna ríkisstjórnina. Þeir voru nokkuð keikir og bjartsýnir á hvað þeir ætluðu að gera. Jafnvægi og framsýni eru leiðarstef stjórnarsáttmálans; þetta hljómar dálítið eins og úr munni mannauðsstjóra fyrirtækis að kynna gildin eða kannski einkunnarorð einhvers félags fullorðinna í sögu eftir Ole Lund Kirkegaard. Þetta er ekki sérstaklega spennandi, en þetta eru engu að síður einkunnarorð og þegar maður leggur af stað í leiðangur eftir einkunnarorðum ber manni kannski að fara eftir þeim. Það er athyglisvert að fara yfir þessa áætlun með þessi einkunnarorð í huga, að ég tali nú ekki um þau fyrirheit sem gefin voru fyrir kosningar. Það er kannski orðin svo gömul saga í huga stjórnarliða margra hverra að það er algjörlega tilgangslaust að vísa enn einn ganginn í það. Nú virðist engu máli skipta hvað var sagt fyrir kosningar.

Nú erum við að fjalla um þessa þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022. Ég hef hlustað á marga stjórnarliða hér í dag sem vissulega taka undir það að þetta sé ekki allt fullkomið, ekki frekar en önnur mannanna verk; að það þurfi aldeilis að læra af þessu og næst ætlum við nú að vanda okkur betur og svo á allt að fara bara á mun betri veg næst þegar við förum í þetta mál. Við ætlum bara ekki að laga þetta akkúrat núna. Það finnst mér dálítið sérkennileg speki, verð ég að segja.

Verklagið ekki fullkomið, sagði hv. stjórnarþingmaður hér áðan. Hvað er það sem er ekki fullkomið við verklagið? Og af hverju er það ekki fullkomið? Auðvitað er ég ekki að fara fram á hér að verklag við ríkisfjármálaáætlun sé fullkomið, skárra væri það nú. Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af fullkomnum hlutum, þeir eru yfirleitt frekar leiðinlegir. Það er yfirleitt betra að geta haft rúm til að setja til dæmis pólitík inn í hlutina en vera ekki að festa sig í einhverjum verklagsreglum. En þær skipta máli, sérstaklega þegar hæstv. fjármálaráðherra virðist algjörlega fastur í þeim verklagsreglum. Þær virðast skipta meira máli en innihaldið.

Hvernig stendur á því að tölur eru faldar í ríkisfjármálaáætlun, að það þarf að grafa og grafa eftir þeim til að sjá hvernig staðan er, til að sjá hvernig sú daufa hugmynd sem ríkisstjórnarflokkarnir þó hafa, um það hvernig mál muni þróast næstu fimm árin, lítur út? Af hverju er það ekki bara skýrt? Hvernig stendur á því að nefndarmenn — ég get talað fyrir mig og fleiri í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og ég hef hlustað á aðra hv. þingmenn tala um verklag í öðrum nefndum — þurfa að reyna að grafa eftir almennilegum og skýrum tölum, um hvernig hlutirnir eigi að verða næstu fimm árin, frá ráðuneytunum, en fá þær ekki? Hvernig stendur á því?

Hvernig stendur á því að fólk sem vill láta taka sig alvarlega þegar kemur að fjármálum leggur fram áætlun þar sem rekstri og fjárfestingu er grautað saman. Meira að segja ég, fallistinn í bókfærslu úr menntaskóla, veit að svo á ekki að gera. Ég hefði verið felldur enn einn ganginn í bókfærsluprófinu, og þótti nú nóg um hversu oft það var gert, ef ég hefði reynt að skila svörum mínum á þann veg. Þetta leggur hæstv. fjármálaráðherra fram eins og ekkert sé. Og kemur hann og skýrir af hverju þetta er gert? Koma aðrir hæstv. ráðherrar og skýra af hverju þetta er svona? Nei, ég hef ekki enn fengið nein viðhlítandi svör. Auðvitað eru einu svörin við þessu þau að þetta er gert til að hækka tölurnar, til að fegra myndina, til að reyna að líta örlítið betur út þegar þetta arfavitlausa plagg er lagt fram. Og af hverju er þetta svona, af hverju er verklagið ekki fullkomið? Mér finnst stjórnarliðar stundum tala eins og þetta sé eitthvað sem hafi fallið af himnum ofan, ófullburða fugl sem þurfi að hlúa að og gera fullkominn svo að hann geti fleygur farið út í lífið og allir verið sáttir og hamingjusamir. Þetta er ekki fullkomið af því að þetta er illa unnið. Þetta er ekki fullkomið af því að það voru teknar rangar ákvarðanir við vinnu þessa plaggs. Þetta er ekki fullkomið af því að tekin var ákvörðun um að reyna að tala sem óskýrast, til að geta borið kápuna á báðum öxlum, til að þurfa ekki að standa fyrir máli sínu um að nákvæmlega svona verði þetta, þ.e. að sú innviðauppbygging sem var boðuð verði ekki í raun; þó að einhver tala hækki á blaði þýðir það ekki meira framlag inn í rekstur heilbrigðiskerfisins heldur til dæmis eitt stykki nýs Landspítala.

Þetta ófullkomna verk, sem stjórnarliðar tala stundum um sem óheppilega tilviljun sem við þurfum að taka á næst þegar við förum í verkið, er allt saman pólitísk ákvörðun þeirra sem leggja það fram. Það er ekki flóknara en það, menn eiga bara að standa við það.

Svo er þetta boðað sem ramminn sem allt muni þurfa að rúmast innan. Hér eru línurnar lagðar fyrir okkur, þetta sé kortið sem við ætlum að fara eftir næstu fimm árin. En um leið og gagnrýnisraddir heyrast, um leið og stjórnarflokkarnir lenda pólitískt í því að erfitt er að standa við það sem í þessu stendur er hlaupið frá þessu. Þá er þetta ekki lengur mikilvægasta plagg ríkisstjórnarinnar og ramminn sem allt þarf að fara eftir. Þá er þetta einhver hugmynd sem yrði endurskoðuð á næsta ári. Þá er þetta bara eitthvað sem stjórnarflokkarnir, kankvísir hv. stjórnarliðar, geta sagt um: Jú, jú, við erum víst sammála og allt er í góðu hjá okkur, þegar þeir tala út og suður um grundvallarhluti í fjármálaáætlun, stóra tekjupósta. Hækkun virðisaukaskatts — er það ekki stóri tekjupósturinn sem á að auka tekjur ríkisins í þessari áætlun? Þetta er ekki eins og að velta því fyrir sér hvort keyra eigi austurleiðina eða vesturleiðina ef maður er að fara á Egilsstaði, jafnvel suður- eða norðurleiðina ef maður væri betri í áttum og línulegum leiðum en ég, þetta er grundvallaratriði. Svo láta menn eins og það sé ekkert mál að í ríkisstjórn með eins manns meiri hluta séu menn í grundvallaratriðum ósammála um þetta. Fjárlög hafa oft verið talin prófsteinninn á það hvort ríkisstjórn hefur meiri hluta eða ekki, hvort hún kemur fjárlögum í gegnum þingið. Það verður áhugavert að sjá hvernig það fer með þessa áætlun.

En af hverju tala ég svona mikið um þennan ramma og það að hlaupast frá þessu og láta allt í einu eins og það sem var kynnt eins og það væri klappað í stein sé nú bara einhvers konar umræðugrundvöllur? Það hvort vaskurinn á ferðaþjónustunni verður hækkaður um mitt ár, á næsta ári eða um næstu áramót eða hvort við skoðum komugjöld eða hvað það nú er — af hverju er ég að minnast svona mikið á þetta? Þá er ég kannski með í huga einkunnarorð ríkisstjórnarinnar, jafnvægi og framsýni. Það er ábyrgðarhluti að leggja svona fram. Það er ábyrgðarhluti að koma öllum þeim greinum, öllum þeim fyrirtækjum, öllum þeim stofnunum, öllum þeim starfsmönnum sem þetta plagg snertir, sem er náttúrlega bara þjóðin öll, í algjört uppnám hvað varðar starf þeirra næstu árin. Og segja svo bara: Jæja, þetta er nú bara eitthvað sem við ætluðum að leggja fram hér til að ræða ef tími gæfist til.

Hæstv. fjármálaráðherra lagði mikið upp úr því að standa alla tímafresti er vörðuðu framlagningu þessa máls. Það er vissulega gott að reyna að standa við tímafresti, en er ekki mikilvægara að reyna að vanda til verksins? Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom hér inn á það að kannski hefði mátt haga þessu aðeins öðruvísi. Mér finnst það ábyrgðarhluti að leggja fram svona plagg sem verður til þess að, svo að ég tali bara hreint út, stórir hópar þjóðfélagsins fari bara í sjokk af því að þeir sjá hver ætlunin er. Svo er látið eins og þetta hafi ekki verið neitt neitt. Það er mun meiri ábyrgðarhluti en það hvort plaggið kom fram á ákveðinni dagsetningu eða viku eða mánuði eða hvað það er síðar. Eða ættum við kannski ekki að horfa bara til Svía fyrst við erum að taka þessa aðferðafræði hvað varðar opinber fjármál upp sem tóku sér níu ár í að innleiða þetta? Hæstv. ríkisstjórn virðist ætla að sveifla töfrasprota og henda þessu fram sem sínu fyrsta máli á örfáum mánuðum. Mér finnst þetta óábyrgt og gagnrýni á þetta plagg er eiginlega, ja, hún er legíó. Það er varla í nokkurri einustu umsögn um þetta plagg sem finna má einhverja jákvæða stuðningsyfirlýsingu. Allt frá litlum atriðum yfir í grundvallarforsendur þess er gagnrýnt og ég nefni sem dæmi umsögnina sem barst frá sjálfu fjármálaráði. Þessi gagnrýni ratar meira að segja inn í umsögn meiri hluta fjárlaganefndar. Það er ekki eins og þetta sé bara eitthvert fólk úti í bæ, með fullri virðingu fyrir því. Það er ekki eins og þetta sé bara minni hlutinn, það er ekki eins og þetta séu bara stofnanir sem horfa fram á að fá kannski skerta fjármuni til sín. Þetta er sjálfur meiri hluti fjárlaganefndar, stjórnarmeirihlutinn; hann gagnrýnir þetta í bak og fyrir.

Ég leyfi mér að vitna í umsögn meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að frestur fastanefnda þingsins til þess að skila umsögn um málið til fjárlaganefndar var mjög knappur og hefur það haft áhrif á umfjöllun nefndarinnar.“

Var þá ekki ráð að veita bara aðeins meiri frest, breyta aðeins tímaáætlunum hvað þetta varðar?

Meiri hlutinn telur mikilvægt að styrkja nefndasvið skrifstofu Alþingis. Hvað erum við búin að tala hér oft um það frá því að ég kom á þing sem er ekki orðinn langur tími, þótt ég sé gamall sem á grönum má sjá. Aldrei fæst eitt stakt orð frá hæstv. fjármálaráðherra um hvort styrkja eigi nefndasvið skrifstofu Alþingis. Er það að finna í ríkisfjármálaáætlun? Nei. Samt telur meiri hluti fjárlaganefndar það nauðsynlegt.

„Meiri hlutinn telur mikilvægt að í fjármálaáætlun birtist eftir því sem kostur er áætlaður kostnaður við einstakar aðgerðir sem stefna á að.“

Áætlaður kostnaður við einstakar aðgerðir sem stefna á að — þetta er dálítið grundvallaratriði, er það ekki, þegar maður er að leggja fram yfirlit yfir fjármál næstu fimm ára, að kostnaður þeirra aðgerða sem stefnt er að sé áætlaður?

„Fyrir nefndinni var bent á að þörf er á samræmdum verklagsreglum um hvernig skuli áætla kostnað aðgerða í fjármálaáætlun.“

Við sátum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og það var happa og glappa hvaða upplýsingar við fengum. Þær voru settar fram á allt öðru formi frá hæstv. innanríkisráðuneyti en hæstv. umhverfisráðuneyti. Hittist þetta fólk ekkert á ríkisstjórnarfundum? Ja, reyndar sjaldnar en aðrar ríkisstjórnir því að hæstv. ríkisstjórn telur ekki þörf á að funda nema einu sinni. Þau eru svo fagleg í störfum sínum að þeim dugar einn fundur þegar aðrar ríkisstjórnir tóku tvo á viku.

Svo er það þetta sem fallistinn ég í bókfærslunni kom meira að segja sjálfur auga á, með leyfi forseta:

„Þá telur meiri hlutinn æskilegt að í fjármálaáætlun verði sundurliðaður annars vegar rekstrarkostnaður og hins vegar kostnaður við einstakar fjárfestingar á tilteknu málefnasviði.“

Þrátt fyrir alla þessa hörðu gagnrýni á að keyra áfram með málið, það á ekki að gera neinar grundvallarbreytingar, það á ekki að leggja fram nein gögn sem sjálfur hv. meiri hluti fjárlaganefndar kallar eftir. Það á bara að halda áfram.

Við upplifðum það í hv. umhverfis- og samgöngunefnd hvílíka óvissu þetta mál hefur skapað. Fulltrúi hverrar stofnunarinnar á fætur annarrar kom inn á fund til okkar og enginn vissi hvernig neitt myndi líta út í rekstri næstu ára. Við skulum ekki láta eins og það sé bara eitthvað sem skipti ekki neinu máli. Eins og ég kom inn á áðan er það ábyrgðarhluti að festa sig ekki svo í tímasetningum og formi, í excel-skjali, að ekki séu hafðar í huga afleiðingarnar á líf og störf fólks og stofnana.

Og ég er ekki enn þá byrjaður á innihaldinu, virðulegur forseti. Kemur þá vel á vondan þegar maður sem segist vera jafn lítið fyrir formið og ég er sé búinn að eyða öllum þessum tíma í að tala um það. En það er af því að þetta er mikilvægt. Það er ekki bara hægt að leggja þetta fram og segja: Þetta eru bara svona byrjunarörðugleikar og við lögum þetta næst. Ég ætla að segja þetta aftur: Það er pólitísk ákvörðun að setja fjármálaáætlun svona fram. Það er pólitísk ákvörðun um að grauta saman rekstri og fjárfestingu, það er pólitísk ákvörðun um að vera ekki skýrari í fjármálaáætlun en raun ber vitni.

Það hefði verið hægt að taka aðra ákvörðun. Það er engin hending að orðin röðuðust svona upp í þessa miklu bók, að línuritin urðu akkúrat svona. Þetta er ákvörðun.

Og það er hálfgrátlegt, verður að segjast, að ríkisstjórn sem boðaði, með bjartsýnt blik í augum í upphafi ferils síns, nútímaleg vinnubrögð, enda samansett af flokkum sem fyrst og fremst réttlæta tilvist sína með þörf á nútímalegum vinnubrögðum, skuli kolfalla svo á þessu prófi. Og þegar þetta var rætt, þegar á þetta var bent, við fyrri umr. þessa máls, hvernig urðu viðbrögðin? Tóku menn mark á þessu, fóru menn á nútímalegan hátt í að velta því fyrir sér hvort hægt væri að breyta og bæta strax, ekki bara gefa loforð um að gera það næst, eins og alkinn sem ætlar að vera edrú næstu helgi, heldur núna? Nei, ég hef frekar upplifað skens og dæsingar þegar við ræðum þessi mál hér í pontu, eins og þetta skipti í raun alls engu máli. Ég get ekki annað sagt en að þetta plagg, þessi vinna, þetta form og umræðurnar um þetta, hafa valdið mér gríðarlegum vonbrigðum. En það er svo sem allt í lagi, ég er vanur að verða fyrir alls kyns vonbrigðum og rís upp aftur og held áfram bjartur og glaður inn í lífið.

Þá er kannski rétt að snúa sér að efninu, tilefni þess að ég kom hér upp í þessa pontu, sem er hlutinn sem fellur undir nefndina okkar, hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Skemmst er frá því að segja að tími minn er nánast á þrotum sem ég hafði ekki áttað mig á, ég hlýt að hafa svona ótrúlega gaman af að hlusta á sjálfan mig tala því að tíminn (Gripið fram í: Nei.) líður mjög hratt þegar ég er hér í pontu, hraðar en þegar aðrir eru í pontu jafnvel. Ég fer kannski betur yfir það síðar, bið hæstv. forseta að setja mig á mælendaskrá, og fer þá betur ofan í það er lýtur að hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ég treysti því að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson komi eitthvað inn á það líka því að þar er aldeilis af nógu að taka. Þar eru þeir málaflokkar sem ríkisstjórnin er búin að boða, jafnvel með blaðamannafundi sex ráðherra, að eigi að skreyta hana mörgum fjöðrum, meðal annars loftslagsmálin; ramminn í umhverfismálum mun hækka um 1 milljarð, (Forseti hringir.) ef ég man rétt. Það verður gaman að sjá hvernig á að nýta þá peninga margoft svo að þeim markmiðum öllum verði náð.