146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:03]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, vissulega, ef samið hefði verið lag um síðustu kosningabaráttu hefði það sennilega heitið „Ást á innviðum“ því að það er það sem allir töluðu um; skortinn, þörfina, uppbygginguna sem fara þyrfti í. (Gripið fram í: Fjárfestinguna.) — Já, fjárfestinguna í innviðum, vissulega. Og aldrei heyrði ég nokkurn einasta þingmann tala um að öll þessi uppbygging þyrfti að rúmast innan hagsveiflunnar, engan, ekki einn einasta.

Það veltir upp þeirri spurningu sem hv. þingmaður kom inn á, hvað eigi að gera í þessum málum. Það er svo djúpt á tölunum að meira að segja við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd vitum ekki hver raunveruleg ætlun ríkisstjórnarinnar er þegar kemur að samgöngumálum. Þar er vísað í samgönguáætlun, sem virðist vera bókahilla fyrir hæstv. samgönguráðherra þar sem hann getur bara valið úr þau bindi sem hann vill lesa hverju sinni. (Forseti hringir.) Við erum engu nær um hvað á raunverulega að gera í þessu nema, jú, að sjálfsögðu á að fara í einkaframtakið og að sjálfsögðu á að rukka vegtolla, sem eru ekkert nema skattahækkun á notendur.