146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Jú, vissulega má taka undir það. Í raun og veru er þetta dæmi um skort á samráði og getu meiri hlutans til að hlusta á sjónarmið þeirra sem fjármálaáætlun mun hafa áhrif á, hvort sem er til skemmri eða lengri tíma litið. Auðvitað er þetta ákveðið leiðarstef eins og svo margt annað hjá þessari ríkisstjórn, að svíkja ítrekað loforð um aukin fjárframlög og tala undir rós um að það eigi þrengja skilyrði til að komast í háskóla til að mæta vissum kröfum sem komið hafa fram um að auka fjármagn í akkúrat þetta mikilvæga skólastig. Þessi umsögn frá Háskólaráði er allrar athygli verð. Auðvitað hefðu átt að koma fram breytingartillögur frá meiri hlutanum ef hann tekur raunverulega undir þetta með ráðinu og er einhver alvara í því að hlusta á framtíðina í landinu, sem eru m.a. háskólanemar.