146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við séum á mjög viðkvæmum stað. Annars vegar er talað um að það þurfi að skoða hvort innleiðingin standist stjórnarskrá, þ.e. hvort búið sé að afnema það vald sem Alþingi hafði. Hugmyndin um þessi lög var sú að að aflokinni afgreiðslu fjármálastefnu væri tekin stefnumótandi umræða um fjármálaáætlun, það væri aðalumræðan. Þar myndu menn skiptast á skoðunum og að lokum myndi löggjafinn segja sitt, þ.e. um hvert hann vill stefna. Við sjáum núna álit og umsagnir meiri hlutans frá ólíkum nefndum þingsins þar sem þeir gagnrýna meira og minna það plagg sem kom frá ríkisstjórninni og virðast ekki tilbúnir að styðja það, en engu að síður leggja þeir til að það verði samþykkt óbreytt. Ég hef áhyggjur af því að þetta sé að mistakast og að umræðan um fjárlög verði nákvæmlega eins og sú sem við höfum heyrt á undanförnum árum, að það verði (Forseti hringir.) sama karpið um alla liði, jafnt stóra sem smáa. Það finnst mér (Forseti hringir.) miður vegna þess að hér áttum við að taka umræðuna um stefnumörkunina. Það verður ekki gert (Forseti hringir.) nema bæði þingmenn meiri hluta og minni hluta séu viðstaddir (Forseti hringir.) þá umræðu.