146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:00]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni. Þessar upplýsingar komu fram á fundum. En við fengum skýringar á því á fundi sem fór fram eftir það. Við fengum nákvæmar tölur og fengum líka þær upplýsingar að það eru ýmis verkefni sem hafa verið kláruð og það fjármagn rennur áfram til spítalans. Það er ein skýringin. Eins og ég sagði taldi ég að þarna væri alveg rosalegt bil. Landspítalinn var í vörn, þeir sögðu eitt, en það plagg sem við höfum hér sagði annað. Ég taldi að það þyrfti að kafa miklu dýpra ofan í málið og brúa bilið. Það kynti svolítið undir þeirri hugmynd hjá mér að það væri ágætt að hafa einhverja aðra fagaðila, að leyfa þeim að vinna þessa vinnu, brúa þetta bil, leyfa einhverjum að stíga þarna inn og vinna með þeim og með ríkisstjórninni eða valdhöfum.