146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Í ljósi þess hversu stutt er eftir af þessu þingi þykir mér orðið fullvíst að ég fái ekki að mæla fyrir þingsályktunartillögu sem ég ásamt öðrum hv. þingmönnum höfum lagt fram um heildarendurskoðun lögræðislaga, sem er þó brýn þörf á að gera. Því vildi ég nota þetta tækifæri í störfum þingsins til þess að hvetja hæstv. dómsmálaráðherra til þess að hefja formlega vinnu þrátt fyrir að Alþingi hafi ekki gefið henni fyrirskipanir þar um. Það er brýnt, frú forseti, að fjarlægja lagalega mismunun úr lögræðislögum sem heimila frelsissviptingu á þeim grunni einum að einstaklingur þjáist mögulega af geðsjúkdómi. Það er brýnt að hefja formlega vinnu við heildarendurskoðun á þeim lögum. Það er brýnt að vinna að úrbótum í réttarvernd ósakhæfra brotamanna og það er mjög brýnt að standa við gefin loforð um fullgildingu OPCAT, sem krefst sjálfstæðra eftirlitsstofnana með málefnum frelsissviptra sem og sjálfstærðrar mannréttindastofnunar sem lengi hefur verið talað um.

Einnig vil ég hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til þess að setja reglugerð varðandi beitingu þvingaðrar meðferðar og þvingaðrar lyfjameðferðar sem enn vantar í lögræðislögin en heilbrigðisráðherra hefur heimild til að gera án samþykktar þingsins. Það tel ég vera brýna réttarbót sem heilbrigðisráðherra getur unnið að í sumar þótt þing sé ekki að störfum. Ég tel það nauðsynlegt, frú forseti. Það verður að setja í forgang lagabreytingar og reglugerðir sem vernda betur réttindi þessa minnihlutahóps í samfélagi okkar. Það verður að setja í forgang lagabreytingar í lögum um fóstureyðingar sem vega að kynfrelsi fatlaðra kvenna.

Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra, til að setja þessi mál í forgang, og víkja af þeirri stefnu sem mér sýnist vera með rafrettufrumvarpi og sterafrumvarpi og stoppi á frestun réttaráhrifa. Þar er frekar verið að skerða málsmeðferðarréttindi einstaklinga en að bæta þau. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að bæta réttarvernd þessa hóps (Forseti hringir.) því að ef mannréttindavernd er látin bíða þá eru það venjulega minnihlutahópar sem líða fyrir það, eins og við vitum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)