146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

viðvera ráðherra við umræður um fjármálaáætlun.

[11:19]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð þeirra þingmanna sem hér hafa tekið til máls undir þessum lið. Ég sakna náttúrlega sérstaklega heilbrigðisráðherra í þessari umræðu og þess að hafa ekki tækifæri til að hitta hann þá daga sem ég sit á þingi núna þar sem hann er fjarverandi við þessa mikilvægu umræðu. En ég skil hins vegar vel að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og einnig byggðamálaráðherra haldi sig víðs fjarri. Eins og með þeirra málaflokka er farið í þessari fjármálaáætlun reyna þeir að vera fjarri ef ske kynni að fyrir þá yrðu lagðar spurningar um þau mál sem undir þá heyra, tala nú ekki um mennta- og menningarmál í kjördæmi ráðherra menntamála. Þar getum við bent á ýmsa hluti sem eru óskiljanlegir.